Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:46:03 (4676)

2002-02-14 14:46:03# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:46]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar maður horfir á það ósamræmi sem er á milli þessa frv. og þess frv. sem hæstv. ráðherra keyrði í gegnum þingið á síðustu dögum þess í vor veltir maður alvarlega fyrir sér hvort hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gera. Það er bara þannig. Og þegar maður byrjar að hafa efasemdir hlýtur maður auðvitað að hafa svolitlar áhyggjur af því hvernig framgangur verkefnisins er að öðru leyti. Það getur tæpast verið meðvitaður vilji hæstv. iðnrh. eða ríkisstjórnarinnar að afhenda Landsvirkjun þessa virkjunarkosti sem eru líklega þeir hagkvæmustu sem um er að ræða ---- ég vil skjóta hér inn að ég geri fastlega ráð fyrir að Kárahnjúkavirkjun verði inni á rammaáætlun sem leyfilegt verkefni, mér kemur ekki annað til hugar, við þurfum ekki annað en að skoða svæðisskipulagið til að átta okkur á því --- en að menn skuli koma inn með þetta með þessum hætti kemur dálítið á óvart.

Herra forseti. Ég óska þá hreint og klárlega eftir því að ráðherra útskýri fyrir okkur ef það er meðvitaður vilji að afhenda Landsvirkjun þessa virkjunarkosti á allt öðrum forsendum en öðrum orkufyrirtækjum verður ætlað að fá sína virkjunarkosti eftir kannski bara örfáa mánuði. Ef það er rétt sem hæstv. ráðherra hefur látið hafa eftir sér, að ný raforkulög yrðu að hafa tekið gildi um mitt ár, er ekki langt í að allt önnur lögmál gildi fyrir öll önnur orkufyrirtæki í landinu? Er það meðvitaður ásetningur ríkisstjórnarinnar að gera allt öðruvísi við Landsvirkjun en stendur til að gera við aðra?