Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:50:04 (4678)

2002-02-14 14:50:04# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég og hæstv. ráðherra erum að tala um sama málið. Ég er að tala um frv. til nýrra raforkulaga sem var vísað til hv. iðnn. í lok síðasta þings. Því var vísað þangað og það var samkvæmt vilja ráðherrans. (Gripið fram í: Það var ekki keyrt í gegnum þingið.) Ja, það var keyrt inn í nefnd, keyrt í gegnum 1. umr. án nokkurrar umræðu í raun og veru, vegna þess að það lá svo á að koma málinu í nefnd og þannig var það. Þar af leiðandi hljóta menn að horfa til þess að það sem þar kom fram sé það sem menn ætla sér að hafa sem stefnumarkandi atriði inn í framtíðina.

Ef það er allt gjörbreytt, herra forseti, spyr ég: Hvernig ætlast þá ráðherrann til þess að hægt verði að afgreiða málið fyrir vorið ef ekki stendur steinn yfir steini í helstu stefnumarkandi atriðum?

Síðan að það styttist í frv. --- þetta heyrði ég líka í október. Þá styttist í frv. Og það er búið að vera að styttast í það allan tímann. Líklega kemur það á endanum fram, en herra forseti, maður veltir auðvitað fyrir sér af hverju það er ekki komið fram fyrr. Var það vegna þess að hæstv. ráðherra er með þann einbeitta ásetning að hafa þessa lagaumgjörð gagnvart Landsvirkjun allt öðruvísi en gagnvart öðrum fyrirtækjum í landinu? Og hvað segja þá önnur fyrirtæki um það? Það verður fróðlegt að heyra hljóðið í þeim þegar kemur að vinnslu þessa frv. í hv. iðnn.