Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:53:48 (4680)

2002-02-14 14:53:48# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:53]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hv. 1. þm. Norðurl. e. væri að hefja ræðu sína og beið eiginlega spennt eftir því sjálf að fara í andsvar við hann vegna þess að ég hélt satt að segja að ég væri fullfær sjálf um að túlka mín viðhorf og hefði gert það sæmilega skýrt.

Ég heyri hins vegar að hv. þm. Halldór Blöndal hefur annaðhvort viljandi eða óviljandi --- manni er það ekki alltaf alveg ljóst --- misskilið meira og minna það sem ég var að segja. Ég hélt nefnilega að það hefði komið sæmilega skýrt fram að ég treysti hv. iðnn. alveg til þess að breyta frv. í þá veru sem þarf að gera til að það samræmist því raforkuumhverfi sem við ætlum væntanlega að sjá til þess að verði hér á næstu árum. Ég held að nefndin sé fullfær um að vinna það um leið og hún er að vinna hitt frv. Hafi ég skilið orð hæstv. ráðherra rétt mun nefndin hafa þessi tvö stóru mál á sinni könnu á sama tíma.

Hvað það varðar hins vegar að verið sé að létta undir með einhverjum tilteknum aðilum varðandi viðleitni þeirra til uppbyggingar í atvinnulífi frábið ég mér útleggingar hv. þm. á því. Ég ræddi áðan um stöðu Austfirðinga og stöðu byggðamála fyrir austan. Ég hélt að ég hefði gert það sæmilega skýrt og af þeim skilningi sem ég bý yfir af því að ég á sjálf heima úti á landi og ég frábið mér dylgjur af því tagi sem hv. þm. bar hér á borð.