Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:55:43 (4682)

2002-02-14 14:55:43# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á málflutningi hv. þm. Hún talaði um það í ræðu sinni að nú yrði að fara í það að endurskoða frv. og að Landsvirkjun yrðu ekki afhentir þessir virkjunarkostir á sama hátt og hér er verið að tala um. Auðvitað er hv. þm. með þessum ummælum sínum að leggja það til að málið verði enn dregið og hún getur ekkert komist undan þeim orðum. Eða hvað átti hv. þm. við þegar hún sagði að það legði ramman keim, og hann ekki góðan, af þessu máli? Hvað átti hv. þm. við með því?

Svo er annað í ræðu hv. þm. sem ekki er síður athyglisvert. Alþingi setur auðvitað sjálft sín lög og auðvitað hlýtur Alþingi að vinna samkvæmt sjónarmiðum sínum og því lagaumhverfi sem er eða breyta lagaumhverfinu ef Alþingi býður svo við að horfa. Og auðvitað vinnur Alþingi ekki í samræmi við einhver frumvörp sem eiga síðar eftir að koma fram þannig að ræða hv. þm. var upphafin og í raun óskiljanleg og allur röksemdaflutningur þingmannsins var algjörlega óskiljanlegur.

Rauði þráðurinn í því sem hv. þm. sagði var sá að við skyldum ekki fara að þeim tillögum sem hér liggja fyrir þinginu í frv. hæstv. iðnrh. heldur slá málinu á frest og með því móti standa að þessum málum og þar með í raun setja málið í heild sinni í hættu. Og það er ómögulegt að skilja þetta öðruvísi en svo að það sé rödd Samfylkingarinnar á Austurlandi sem talar (Gripið fram í.) í gegnum þennan hv. þm.