Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:23:17 (4689)

2002-02-14 15:23:17# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski loksins að koma fram af hverju hv. þm. Halldór Blöndal fer hér svo mikinn í ræðustól og kýs að nota helming ræðutíma síns í það að leggja út af minni ræðu. Það er auðvitað vegna þess að það er greinilega bullandi ágreiningur í ríkisstjórninni um þá auðlindapólitík sem á að koma fram í frv. til nýrra raforkulaga. Það er auðvitað þess vegna sem þetta ósamræmi er.

En ég minni á að ríkisstjórnin var áður, og þingflokkar hennar, búnir að samþykkja það frv. því það var lagt hér fram á þinginu í fyrra. Þar eru auðvitað ákveðin stefnumarkandi atriði. Ef menn kippa síðan að sér höndunum núna, eða standi ágreiningur um það, er auðvitað skiljanlegt af hverju menn vilja ekki kannast við að hér sé í raun farið fram með mál sem er allt öðruvísi að mörgu leyti en ákvæði í því frv. til raforkulaga sem hér var fjallað um sl. vor og síðan áfram í sumar.