Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:32:29 (4699)

2002-02-14 15:32:29# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er Alþingi sem á að taka ákvörðun um þetta stórmál. Við fáum ekki aðgang að þeim arðsemisútreikningum sem staðhæft er að séu fyrir hendi. Við fáum hins vegar þau skilaboð frá Landsvirkjun að slíkir útreikningar og þær forsendur sem þeir séu byggðir á, séu viðskiptaleyndarmál og komi þar af leiðandi Alþingi ekki við.

Ég vil einnig vekja athygli hv. þm. á því að margir hagfræðingar, ungir sem aldnir, hafa varað mjög við þessum áformum. Og það hafa þeir gert á sannfærandi hátt. Ég vísa t.d. til desemberheftis Vísbendingar þar sem Sigurður Jóhannesson fjallar ítarlega um þetta efni. Mér fannst þau rök sem þar eru reidd fram vera býsna nútímaleg.