Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:56:50 (4703)

2002-02-14 15:56:50# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur að ég sé andvígur öllu því sem er stórt í sniðum. Síður en svo. Ég er mjög andvígur mjög heimskulegum stórum áformum.

Ég vil líka leiðrétta þann misskilning varðandi útflutningstekjurnar og atvinnusköpunina sem kom fram í máli hæstv. ráðherra. Ég er að leiða rök að því að þetta sé óhagkvæm leið til þess að skapa atvinnu og til þess að skapa okkur gjaldeyri. Og ég er að vísa í röksemdir sem reiddar hafa verið fram af fjölmörgum hagfræðingum um þetta efni.

Varðandi arðsemisútreikningana hefur verið upplýst að við fáum ekki að sjá þá. Ég auglýsti eftir þeim á síðasta þingi. Ég gerði það ítrekað í fjölmiðlum í allt sumar. Ég hef aldrei fengið nein svör frá hæstv. ráðherra. Þegar allt kemur til alls eigum við á Alþingi að taka ákvörðun um þetta mál og við eigum heimtingu á að fá fram upplýsingar til þess að við getum gert það á einhvern vitrænan hátt.