Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:00:46 (4706)

2002-02-14 16:00:46# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. og formanni þingflokks Vinstri grænna fyrir athygliverða ræðu. Þar vakti hann upp fjölmargar spurningar sem mikilvægt er að fá svör við. Mig langar hins vegar að inna hann eftir því sem hann talaði ekki um og lítið hefur borið á í málflutningi flokksmanna hans við þessa umræðu. Allt púðrið hefur farið í arðsemi, sem að sönnu er mjög mikilvæg. En hvar er græna stefnan sem ég hélt fram undir þetta að væri hinn rauði þráður í stefnu þessa flokks? Ég skildi það þannig að einu gilti hvort um hagkvæmar aðgerðir væri að ræða eða ekki, heldur hitt að áherslurnar væru rangar, að stóriðja og það að virkja fallvötnin væri ekki hin nýja græna stefna.

Ég vil gagnálykta og spyrja hv. þm. sem svo: Hefur orðið áherslubreyting hjá flokki hv. þm.? Sé hægt er að sýna fram á það í þessum umræðum að af þessu verði gróði fyrir land og þjóð, mun þá Vinstri hreyfingin -- grænt framboð samþykkja og styðja þetta frv.?