Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:01:59 (4707)

2002-02-14 16:01:59# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hefði hv. þm. hlýtt á upphaf máls míns hefði hann heyrt mig segja að um það eitt væru allir sammála, að þessar framkvæmdir mundu hafa í för með sér stórfelld náttúruspjöll. Það eru allir sammála um.

Menn greinir hins vegar á um eitt eða tvö grundvallaratriði. Annars vegar er hópur sem telur þessi spjöll svo alvarleg að ekki eigi undir nokkrum kringumstæðum að ráðast í framkvæmdirnar. Hins vegar er hópur sem segir: Ef hægt er að sýna fram á að þjóðhagslegur ávinningur sé svo afgerandi, svo mikill, er rétt að ráðast í þessar framkvæmdir. Þetta eru þessi tvö sjónarmið.

Hér er frv. sem við héldum að ætti að taka á hinum efnahagslegu þáttum. Ég er því að reyna að fá fram hverjar þessar efnahagslegu forsendur eru og hver hinn þjóðhagslegi ávinningur er. Ég veit að hv. þm. vill helst reyna að ýfa málið upp og draga inn í það pólitíska flokkadrætti en þetta er mergurinn málsins í mínum huga.