Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:23:49 (4719)

2002-02-14 16:23:49# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar um nauðsyn þess að við styrkjum atvinnulíf og byggð með aðgerðum alls staðar á landinu. Við þurfum að búa atvinnulífinu góðar aðstæður. Í dæminu sem við ræðum hér um, þ.e. samandregið Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðjan á Reyðarfirði, er talið að hvert ársverk kosti um 400 millj. kr. og heildarfjárfestingin þar, í kring um eina tegund af atvinnustarfsemi, sé 350--400 milljarðar kr. Þær upphæðir hafa verið nefndar í því sambandi.

Venjulegt ársverk á Íslandi er talið kosta um 10 millj. kr., ekki 400 eins og í þessu tilviki. Teldi hv. þm. ekki, ef hann liti á málið frá öðru sjónarhorni, hægt að byggja upp annars konar atvinnu á Austurlandi og víðar þó ekki væri varið nema litlum hluta af þessu fjármagni til þess? Stór hluti fjármagnsins sem þarna er á ferðinni eru bein eða óbein ríkisframlög. Væri ekki hægt að byggja upp aðra atvinnu, veita annan stuðning til atvinnulífs á Austurlandi þar sem ársverkið kostaði ekki 400 millj. heldur væri nær þeim 10 millj. sem það kostar að meðaltali á landinu?