Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:25:42 (4720)

2002-02-14 16:25:42# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:25]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er um verulegar fjárhæðir að ræða í þessum framkvæmdum, það er alveg ljóst. Ég hjó eftir því að hv. þm. talaði um hvort ekki væri möguleiki á að verja þessum peningum til annars konar atvinnustarfsemi.

Jú, við getum auðvitað varið peningum til ýmiss konar atvinnustarfsemi. En þessi möguleiki er þarna fyrir hendi. Hann er um margt spennandi fyrir þetta svæði. Við mundum þarna nýta náttúruauðlindir og skapa 1.100 störf á þessu svæði. Þeim mundi síðan fylgja alls konar hliðarþjónusta og þess háttar.

Ég kem frá Hvolsvelli, stað sem Sláturfélag Suðurlands flutti kjötvinnslu sína til árið 1991. Þá voru 100 störf flutt á einu bretti til Hvolsvallar. Það hafði gríðarleg áhrif, ekki bara á atvinnuflóruna á þeim stað heldur í Rangárvallasýslu í heild sinni. Alls konar þjónusta skapaðist í kringum þessa starfsemi og ég bendi á það að á sama hátt hlýtur að skapast gríðarleg atvinnustarfsemi í kringum þessi 1.100 störf sem verða til á þessu svæði.

Þá getum við líka farið að leika okkur með þessar tölur. Hv. þm. talar um að hvert ársverk í þessu kosti 400 millj. Þar er náttúrlega mjög frjálslega farið með tölur. En ef við veltum fyrir okkur ágætri tillögu Vinstri grænna um að verja 400 millj. til atvinnuuppbyggingar á Austurlandi í fimm eða sex ár þá eru það fimm eða sex störf, út frá sömu rökum. Sú tala er auðvitað ekki há en þetta er alltaf spurningin um í hvaða samhengi við setjum hlutina.