Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:27:50 (4721)

2002-02-14 16:27:50# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:27]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór ekki frjálslega með tölur. Ég fékk þessar tölur upp úr skýrslu Hagfræðistofnunar sem er fylgiskjal við mat á umhverfisáhrifum þessarar framkvæmdar.

Það er gott að byggja upp atvinnurekstur, eins og hv. þm. minntist á, á Suðurlandi. En hvað mundi hv. þm. segja ef ríkið mundi almennt veita slík kjör, veita ríkisábyrgð á lán til atvinnurekstrar eins og hér er um að ræða og viðkomandi fyrirtæki mundi ekki þurfa að borga skatta til ríkisins, eins og fyrirhugað er með Kárahnjúkavirkjun? Hvernig væri ef þannig væri staðið að atvinnurekstri vítt og breitt um landið? Mundi þá ekki vera hægt að byggja upp margs konar atvinnu með bakstuðningi af því tagi eða er þetta heiðarlegur samkeppnisgrunnur sem þarna er settur upp?

Í síðasta lagi, herra forseti: Óar hv. þm. ekki við að þarna er verið að ráðast í eina mestu náttúruröskun af mannavöldum sem nokkurn tíma hefur verið farið í hér á Íslandi og að miðlunarlón þessarar virkjunar sem þarna yrði ráðist í er talið muni fyllast eða að miðlun þess fari að minnka að 100--200 árum liðnum? Hér er því um óafturkræfa náttúruröskun að ræða. Óar honum ekki við þessum stærðum, óar honum ekki við þessum tölum og náttúruröskun sem er óafturkræf? Þessar gríðarlegu upphæðir í fjármunum sem við kunnum varla að nefna en skiljum að hvert ársstarf kostar 400 millj. kr., óar honum þetta virkilega ekki? Óar honum þetta ekki? Mér óar þetta og tel óskynsamlega að farið. Óar honum ekki það sem þarna á að ráðast í?