Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:43:38 (4724)

2002-02-14 16:43:38# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vék að rammaæáætlunum og áætlanagerð. Í því sambandi nefndi hv. þm. Kárahnjúka. Finnst hv. þm. ekki skjóta skökku við að á sama tíma og slíkar áætlanir eru á teikniborðinu, og jafnvel áður en ákvarðanir eru teknar um framkvæmdir á borð við þá sem við erum að fjalla um nú, séu virkjunarframkvæmdir hafnar?

Ég fór um þetta svæði fyrir fáeinum mánuðum, síðasta haust eða síðsumars, og þá voru þar stórvirkar vinnuvélar að verki. Þegar við komum úr þeirri för birtust í blöðum auglýsingar þar sem Landsvirkjun auglýsti eftir verktökum í jarðgangagerð. Finnst hv. þm. ekki skjóta skökku við að dásama annars vegar alla þessa áætlanagerð --- sem ég vildi svo sannarlega að yrði unnin af heilindum --- á sama tíma og ráðist er í framkvæmdir með þessum hætti?

Hv. þm. fagnaði því að þetta frv. væri komið fram og að þjóðin öll mundi hagnast á því, þetta yrði til að bæta lífskjör í landinu. Hvað segir hv. þm. um röksemdir þeirra hagfræðinga, m.a. pólitískra skoðanabræðra- og systra hv. þm., sem vara okkur við að ráðast verði í þessar framkvæmdir, einmitt á þeirri forsendu að það muni ekki auka og bæta þjóðarhag heldur koma í bakið á þjóðinni og skerða þennan sama hag?