Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:46:29 (4726)

2002-02-14 16:46:29# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta sannast sagna nokkuð léttvægur málflutningur, ekki síst í ljósi allra þeirra tillagna sem við höfum sett fram um ráðstafanir í byggðamálum. En það er búið að snúa hlutunum á hvolf, þeir sem áður töluðu um hinn frjálsa markað eru nú talsmenn áforma sem sjálfur Stalín hefði bliknað frammi fyrir.

Ríkið ætlar að gangast í ábyrgð fyrir stórfelldustu fjárfestingar í sögu íslenska lýðveldisins og þetta á að gera án þess að þjóðin eða fulltrúar hennar fái einu sinni aðgang að grunnefnahagsforsendum í málinu. Það á að bjóða okkur upp á þetta.

Við höfum hins vegar verið talsmenn þess að stoðkerfi samfélagsins, velferðarþjónustan, skólarnir, heilbrigðisþjónustan og þar fram eftir götunum, yrði eflt og síðan viljum við koma á fót nýsköpunarsjóðum, aðgangi að góðu lánsfjármagni til þess að atvinnulífið geti plumað sig við þær aðstæður. Þetta er sú sýn sem við höfum gagnvart þessum fornfálegu sjónarmiðum sem Sjálfstfl. hefur gerst talsmaður fyrir.