Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:50:47 (4729)

2002-02-14 16:50:47# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að í mínu máli hafi komið skýrt fram að ég tel að við eigum að nýta vatnsöflin til góðra hluta og ég tel að við séum að gera það í þessu. Óásættanleg náttúruspjöll eru víðtæk orð með óræða merkingu. Þau geta verið ásættanleg hjá einum og óásættanleg hjá öðrum. Sumum getur þótt óásættanlegt að byggja út í Tjörnina í Reykjavík en öðrum ásættanlegt.

Mér hefur oft þótt sem allt verði vitlaust ef fara á að framkvæma eitthvað úti á landi en enginn segir orð ef verið er að framkvæma það hér. Hér er verið að fylla upp land hringinn í kringum Reykjavíkurborg, það er verið að stækka Seltjarnarnesið með uppfyllingum. Það segir enginn eitt einasta orð, það þarf aldrei að fara í umhverfismat. Ef það á að gera eitthvað, jafnvel að færa einhvern lítinn vegspotta úti á landi, verður nánast allt vitlaust og það þarf að fara í umhverfismat.