Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 16:54:19 (4732)

2002-02-14 16:54:19# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[16:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hygg að það mál sem við fjöllum hér um sé eitt stærsta málið sem þingið hefur tekist á við í langan tíma, bæði út frá umhverfissjónarmiðum, efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar og þjóðarhag í heild sinni. Þess vegna er afar mikilvægt að vel sé vandað til þess verks sem hér er lagt fyrir þingið og hugað að áhrifunum á þá þætti sem ég hef nefnt.

Ríkisstjórn og hæstv. umhvrh. hafa lagt fram mótvægisaðgerðir að því er umhverfismálin varðar og vissulega snýr málið öðruvísi við hvað umhverfisþáttinn varðar eftir að tillögur umhvrh. komu fram. Þó vil ég halda því til haga að mér finnst alveg nauðsynlegt að skoða lögin um umhverfismat vegna þess að það er auðvitað eðlilegt að mínu mati að Skipulagsstofnun hafi lokaorð um þetta mál en ekki umhvrh. eins og var í þessu tilviki. Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum verða líka að koma fram og þær liggja enn ekki fyrir.

Þrátt fyrir tillögur umhvrh. er um afar mikinn fórnarkostnað að ræða og því er það grundvallaratriði í mínum huga að efnahagslegi ávinningurinn af slíkum framkvæmdum sé alveg klár og að hann sé mikill fyrir þjóðarhag ef ráðast á í virkjunarframkvæmdir. Ég tel, herra forseti, að þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin verður að grípa til verði að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin í þessu máli og þar stendur upp á ríkisstjórnina.

Við í Samfylkingunni viljum líka að samtímis verði hin ósnortnu víðerni tryggð, þær ómetanlegar náttúruperlur sem eftir eru norðan Vatnajökuls. Við höfum talið að komi til virkjunar sé farsælast að tryggja það með því að stofna þjóðgarð á því svæði. Ég tel afar mikilvægt að ákvörðun liggi samtímis fyrir um það hvernig við viljum haga náttúruvernd á hálendinu og landnýtingu á svæðinu norðan Vatnajökuls. Mér finnst afar jákvætt að umhvrh. hefur tekið jákvætt í þær hugmyndir sem við höfum verið með um stofnun þjóðgarðs og mér hefur líka fundist að viðbrögð hæstv. iðn.- og viðskrh. séu jákvæð í því efni að vilja skoða það mál.

Ég tel reyndar grundvallaratriði, verði af þessari virkjunarframkvæmd og á hana fallist í þinginu, að farið verði í að stofna þennan þjóðgarð. Ég tel mjög mikilvægt að ríkisstjórnin geri það, og ef ekki tel ég afar mikilvægt að Samfylkingin --- þegar hún kemst til valda sem væntanlega verður að loknum næstu kosningum --- beiti sér fyrir því að ráðist verði í stofnun þjóðgarðs.

Það eru grundvallaratriði að í efnahagsmálum séu skýrar mótvægisaðgerðir, sömuleiðis í umhverfismálum sem liggja nú þegar fyrir, að efnahagslegur ávinningur af þessum framkvæmdum sé skýr og að samhliða verði ráðist í þjóðgarð. Þetta eru grundvallaratriði sem ég vil telja upp, herra forseti. Ég er jákvæð fyrir því að við skoðum þetta mál að því tilskildu að þetta sem ég hef hér nefnt liggi klárt og skýrt fyrir. Þar vantar töluvert mikið upp á, herra forseti, og mun ég nú reifa það í mínu máli.

Við erum að tala um 250 milljarða framkvæmd. Og hver er áhættan af þessari framkvæmd? Við hvaða arðsemi er þessi framkvæmd miðuð, hvert er orkuverðið sem samið hefur verið um og hvaða álverði er t.d. reiknað með næstu tvo áratugina? Þetta er mikilvæg forsenda þegar metin er þjóðhagsleg hagkvæmni, og áhættan í þessum framkvæmdum öllum saman er orkuverðið og áætlað verð á áli næstu 10--20 árin.

Ég spyr ráðherra um arðsemina. Verið er að tala um, herra forseti, að arðsemin sé 14% og þá er það án mótvægisaðgerða í umhverfismálum sem menn reikna með að kosti 2--3 milljarða. Ég skil það svo að Landsvirkjun ætli að taka þann kostnað á sig og því spyr ég: Hefur arðsemin verið metin þegar tekið hefur verið tillit til kostnaðarins við mótvægisaðgerðirnar að því er varðar umhverfisþáttinn? Auðvitað ber að halda til haga þegar verið er að tala um 14% arðsemi að þá er verið að tala um arðsemi af eigin fé sem er aðeins 25% af fjármagninu. Þegar tekið er tillit til nauðsynlegs lánsfjár til að ráðast í þessar framkvæmdir erum við kannski ekki að tala um nema 5--6% meðalarðsemi. Það er mjög mikilvægt að skoða þennan þátt til að reyna að gera sér grein fyrir áhættunni. Og ég spyr hæstv. ráðherra líka um álverðið sem hefur farið lækkandi. Við hvað er miðað í þeirri arðsemi sem hér er verið að gefa upp?

[17:00]

Herra forseti. Ég tel þess vegna að það þurfi að skoða þetta mál mjög vel þegar verið er að setja öll eggin í eina körfu og binda niður framkvæmdagetu þjóðarinnar á einu svæði næsta áratug og velta fyrir sér hvort framkvæmdin sé svo þjóðhagslega hagkvæm að það réttlæti að færa þann fórnarkostnað af náttúrunni sem blasir við. Svör við þessu liggja ekki fyrir. Ég vænti þess að nefndin sem fær málið til umfjöllunar, hv. iðnn., skoði það vandlega. Mér finnst afar mikilvægt að efh.- og viðskn. fái það einnig til skoðunar og umsagnar þann þáttinn sem lýtur að efnahagslegu áhrifunum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um orkuverðið. Það er afar mikilvægt. Er ekki alveg ljóst og skýrt að a.m.k. iðnn. verði gerð grein fyrir orkuverðinu, þó ráðherrann treysti sér ekki til að gefa það upp hér í umræðunum í dag?

Það er áætlað að á tímabilinu 2002--2009 geti þjóðarframleiðslan að jafnaði orðið 2% hærri og landsframleiðslan 2,5% hærri. Ef þjóðarframleiðslan getur orðið 2% hærri þá erum við að tala um 15 milljarða kr. Ég hef verulegar áhyggjur af áhrifum af verðbólgu á framkvæmdatímanum. Þau eru veruleg. Reiknað er með að verðbólga verði 2,5% án þessara framkvæmda sem við erum hér að ræða um, en gæti orðið alveg upp í 4,5--5%, eða um helmingi meira, við hámark framkvæmdanna.

Það er ekki síst þess vegna sem við erum að kalla eftir mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þetta eykur verulega skuldir heimilanna. Ef verðbólgan er 2% þá verða áhrifin á skuldir heimilanna, sem nú eru um 700 milljarðar kr., þau að þær vaxa um 11 milljarða, þ.e. við 2% verðbólgu, og eitthvað ámóta að því er varðar skuldir fyrirtækja. Og þegar opinberi búskapurinn í heild sinni er skoðaður og skuldir hans, þá gætu skuldir heimila, atvinnulífs og hins opinbera vaxið um 25 milljarða við 2% verðbólgu.

Við erum að tala um að viðskipahallinn aukist á framkvæmdatímanum að jafnaði um 2% af vergri landsframleiðslu. Þar er um að ræða 14,5 milljarða kr. Mestu áhrifin eru áætluð árið 2005 og 2006 þegar viðskiptahalli sem hlutfall af landsframleiðslu gæti orðið 7,5--8 prósentustigum meiri vegna þessara framkvæmda.

Herra forseti. Þá erum við að tala um hvorki meira né minna en viðskiptahalla upp á 60 milljarða kr. bara vegna þessarar aukningar, en hann er núna, eða var á árinu 2001, um 49 milljarðar og þótti mönnum það nú ærið. En hér er um að ræða kannski 60 milljarða þegar viðskiptahallinn gæti orðið mestur vegna þessara framkvæmda.

Það er ekki fyrr en framkvæmdunum lýkur og álverið hefur náð fullum afköstum sem búast má við að áhrifin á viðskiptajöfnuð verði jákvæð og miðað við óbreytt raungengi gæti útflutningur orðið um 14% meiri en annars fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda. Ef við erum að tala um 14% þá er það um 30 milljarðar kr., en Þjóðahgsstofnun telur að auka þurfi útflutning um 5--6% til þess að halda uppi öruggum hagvexti á næstu árum, eða 3--3,5%.

Við verðum að athuga það að áhrifanna byrjar þegar að gæta á verðbólguna á næsta ári, herra forseti, og því hef ég lagt fram fyrirspurn fyrir hæstv. forsrh. um mótvægisaðgerðir vegna efnahagslegra áhrifa af Noral-verkefninu, sem er afar brýnt að fá svör við meðan þetta mál er hér fyrir þinginu. Ég hef spurt um áhrifin af þessu verkefni á möguleika Seðlabanka Íslands til að ná yfirlýstu verðbólgumarkmiði meðan á framkvæmdum stendur. Ég hef spurt um áhrifin á langtímaþróun vaxta, kaupmáttar og hagvaxtar og hvaða áhrif þetta verkefni muni hafa á innlenda vexti, skuldabréfa- og hlutabréfamarkaðinn og gengisþróun. Einnig er nauðsynlegt, ef tekið er mið af verðbólgumarkmiðum Seðlabankans og líka þeirri forsendu að kaupmáttur launa skerðist ekki á framkvæmdatímanum, að fá fram hversu umfangsmiklar þessar mótvægisaðgerðir ríkisvaldsins þurfa að vera og hvaða þýðingu það hafi fyrir aðrar innlendar fjárfestingar á tímabilinu að lánsfé til virkjunarframkvæmda er með ábyrgð ríkis, Reykjavíkur og Akureyrarbæjar og að fjármagnskostnaður er því minni en ella.

Þetta er afar brýnt að fá fram. Við erum að glíma við verðbólguna þessar vikurnar og mánuðina þar sem hvert prósentustig og brot úr prósenti skiptir verulegu máli. En hér erum við að tala um 2%. Ég spyr hæstv. ráðherra sem situr hér og flettir DV og hefur greinilega engar áhyggjur af mótvægisaðgerðum sem ég er að tala um: Munu þær liggja fyrir? Herra forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra að því. Mun ráðherrann beita sér fyrir því að mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin verður að beita sér fyrir ef hún ætlar að hafa þau áhrif að þessar framkvæmdir setji ekki hér allt á hvolf í efnahagsmálum og keyri upp verðbólguna, muni liggja fyrir áður en við ljúkum umfjöllun um þetta mál?

Herra forseti. Ég vil líka nefna að fjárfesting á byggingartímanum verður veruleg. Við erum að tala um að hún verði að meðaltali um 15--20% hærri en ef ekki verður af byggingu álvers og tengdum virkjunarframkvæmdum. Það eru 25--30 milljarðar sem samsvarar raunverulega allri fjárfestingu hjá hinu opinbera, sem er um 30 milljarðar. Á síðasta ári var t.d. fjárfesting um og yfir 20% af landsframleiðslu. Fjárfesting er núna 155 milljarðar. Þá erum við bæði að tala um opinbera fjárfestingu og hjá einkaaðilum. Það eru um 30 milljarðar hjá hinu opinbera. En hérna erum við að tala um fjárfestingu upp á 250 milljarða, herra forseti. Við erum að setja þessa fjárfestingu á einn stað á landinu. Þetta hlýtur að koma niður á fjárfestingum á annars staðar á landinu. Þetta þarf allt að meta.

Herra forseti. Þjóðhagsstofnun hefur sett fram að þær mótvægisaðgerðir sem þarf að grípa til --- það þarf að flytja inn vinnuafl. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað áætlað sé að þurfi að flytja inn mikið af vinnuafli erlendis frá til þess að hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir. Þjóðhagsstofnun telur að það þurfi að fara í niðurskurð á ríkisútgjöldum. Á hverju mun þetta bitna?

Talað er um að fara þurfi í vaxtaaðgerðir. Það verður mikil þensla hér í þjóðfélaginu. Getum við þá búist við verulegum eða einhverjum vaxtahækkunum á þessu tímabili? Síðan hefur Þjóðhagsstofnun bent á að einn hluti mótvægisaðgerða þurfi hugsanlega að vera samdráttur í opinberum fjárfestingum á öðrum sviðum.

Herra forseti. Það er auðvitað ljóst að þingmenn vilja fá að vita, þegar þeir eru að reyna að meta verkefnið í heild sinni, herra forseti, til hvaða mótvægisaðgerða ríkisstjórnin ætlar að grípa í þessu efni.

Herra forseti. Mér finnst tímasetningarnar nokkuð sérstakar í þessu frv. Talað er um að stefna eigi að því að taka endanlega ákvörðun 1. sept. 2002 um hvort af framkvæmdum verði. Þá á væntanlega að liggja fyrir um eignaraðildina. Síðan kemur hér fram að gert er ráð fyrir því að undirbúningsframkvæmdir við virkjunina hefjist í júní 2002, en vinna við Kárahnjúkastíflu og aðrennslisgöng í september 2002. Undirbúningsframkvæmd við virkjunina á sem sagt að hefjast 2002, en það er ekki fyrr en í september 2002 að endanleg ákvörðun liggur fyrir um hvort af framkvæmdinni verði og hvort samningar náist við eignaraðila eða þá sem verða eignaraðilar að álverksmiðjunni.

Herra forseti. Ég spyr og bið ráðherrann hæstv. um svör: Hangir það ekki algjörlega saman, að það verði ráðist í virkjun og álverksmiðjuna? Ég spyr: Ef ekki nást viðunandi samningar um þessa álverksmiðju, verður þá engu að síður farið í þessa virkjun? Hangir þetta tvennt ekki saman? Mér finnst tímasetningarnar undarlegar. Undirbúningsframkvæmd við virkjunina hefst þegar í júnímánuði en ákvörðun um hvort ráðist verði í verksmiðjuna á ekki að liggja fyrir fyrr en í haust. Ég spyr því hvort þetta hangi ekki allt saman saman.

Ég spyr: Við hvaða eignaraðild Norsk Hydro hefur verið miðað í öllum áætlununum sem hafa verið gerðar? Er það 49% eignaraðild Norsk Hydro eða er það eitthvað annað? Á tímabili var miðað við 25%. En er verið að miða hér við 49% eða eitthvað annað?

Það skiptir líka máli hvernig innlend eignaraðild verður. Hver verður t.d. aðkoma lífeyrissjóðanna í þessu máli? Fróðlegt væri ef ráðherrann gæti rætt nánar um það en hún hefur gert.

Enginn dregur í efa mikilvægi þess fyrir Austurland að ráðist verði í þessar framkvæmdir og fyrir liggja alveg skýrar tölur um ávinning Austurlands ef ráðist verður í þessar framkvæmdir, þ.e. fjárfesting í húsnæði upp á 922 millj. og að reisa þurfi 900 íbúðir á tíu ára tímabili. Áætluð er veruleg fjölgun á íbúum, um 2.000--2.500 manns. Ávinningurinn fyrir Austurland er því ótvíræður. En við verðum að skoða málið í heild sinni út frá þjóðarhag, herra forseti, og hvaða áhættu er verið að taka með þessu verkefni.

Það liggur líka fyrir --- það hefur verið skoðað m.a. af Þjóðhagsstofnun, en efh.- og viðskn. fjallaði um þetta mál sl. haust á fundi sínum með Þjóðhagsstofnun og fleiri aðilum --- að skatttekjur ríkisins verða um 2,5--3,5 milljarðar vegna þessa verkefnis. Það er verulegt. En líka er gert ráð fyrir því að stimpilgjald og eignarskattar falli niður eins og er þegar um er að ræða slíkar framkvæmdir og það jafngildir 10% viðbótartekjuskatti sem er auðvitað verulegt. Aðrar atvinnugreinar njóta þess ekki hér á landi.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég hef lagt spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem ég tel afar mikilvægt að fá svör við í þessari umræðu. Svör ráðherrans, vinna iðnn., vinna efh.- og viðskn. og það hvort viðunandi svör fáist við því sem ég hef hér nefnt ráða úrslitum um hvort hægt verði að styðja þetta verkefni. Ég fer í þetta með mjög jákvæðum huga. Ég vil gjarnan geta stutt þetta verkefni. En ákveðnar grundvallarforsendur verða að liggja fyrir til þess að hægt sé að styðja það. Ég haf lagt fram fyrirspurnir, herra forseti, til hæstv. ráðherra sem ég vænti að hún svari í þessari umræðu.