Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 17:23:33 (4737)

2002-02-14 17:23:33# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er lagt fram frv. um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Herra forseti. Allt frá því hæstv. umhvrh. kvað upp úrskurð sinn þann 20. des. sl. um mat á umhverfisáhrifum virkjunarframkvæmda við Kárahnjúka höfum við mátt búast við að frv. yrði dreift um þetta leyti, þ.e. eftir að umsögn Orkustofnunar um frv. lægi fyrir.

Herra forseti. Í stað þess að byrja á því að lýsa skoðunum mínum á efni frv. langar mig til að lýsa tilfinningum mínum gagnvart frv. Þegar ég tók við því í þingsal fann ég bæði til reiði og mikilla vonbrigða vegna þeirrar sýnar sem núverandi ríkisstjórn hefur á nýtingu auðlinda okkar á vatnsföllum, gufuafli og náttúru landsins.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum aðra sýn á nýtingu þessara auðlinda, sýn sem byggir á sjálfbærri þróun og verndun náttúrunnar. En það segir ekki, herra forseti, að ekki megi virkja neitt eða nýta þessar auðlindir á nokkurn annan hátt en að leyfa fólki að njóta þeirra. Og ég vísa til föðurhúsanna þeim ummælum sem koma hér trekk í trekk í þessum þingsal um að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð standi á móti öllum framkvæmdum, ekkert mætti gera ef við fengjum að ráða o.s.frv. Þetta er auðvitað ekki rétt og þeir sem halda þessu fram vita að þeir eru að fara með fleipur og eru að slá sér upp á einhvers konar froðu sem stenst ekki ef menn skoða þetta betur.

Sú sýn sem við höfum getur styrkt efnahag landsins enn frekar þegar til lengri tíma er litið heldur en sú stóriðjustefna og skammtímagróðavon sem núverandi ríkisstjórn byggir á. Stóriðjustefnan er andstæð uppbyggingu á fjölbreyttu atvinnulífi og sjálfbærri þróun byggðar í landinu. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur ályktað oft um málið og gert ítarlegar samþykktir, bæði á landsfundi og í stjórn og í þingflokknum. Það ætti því að vera alveg ljóst hvar við stöndum varðandi þessar virkjunarframkvæmdir. Sömuleiðis hefur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs lagt fram þingmál sem snerta þetta mál eða er a.m.k. mótvægi gegn þessum áætlunum.

Við höfum nýlega lagt fram þáltill. um að málið verði lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að þjóðin fái að kjósa um það hvernig við nýtum svæðið norðan Vatnajökuls. Við höfum lagt fram þáltill. um sérstakt átak til að efla byggð og það á að byrja á Austurlandi. Við höfum lagt fram sjálfbæra orkustefnu. Við höfum lagt fram sjálfbæra atvinnustefnu. Við höfum lagt fram tillögu um Snæfellsþjóðgarð. Allt þetta snýr að þessu máli.

Við viljum hafa þá heildarsýn að þegar við erum að móta stefnu um orkuöflun horfi maður ekki á einstaka þætti heldur hafi heildarsýn á umhverfis-, efnahags- og samfélagsþætti. Það kemur vonandi svo skýrt fram í málflutningi okkar að það verði alveg ljóst hvaða sýn við höfum á þessa þætti.

Samkvæmt úrskurði skipulagsstjóra sem birtist 1. ágúst á síðasta ári og alþjóð er kunnugur telur Skipulagsstofnun að vegna óafturkræfra umhverfisáhrifa ætti að falla frá þessum framkvæmdum. Úrskurðurinn um náttúruspjöllin sem verða vegna Kárahnjúkavirkjunar stendur enn algerlega óhaggaður því samkvæmt úrskurði hæstv. umhvrh. kemur ekkert fram sem vísar til þess hvernig eigi í framtíðinni að fara með það sem í upphafi er Hálslón en til framtíðar litið verður einhvers konar leirsoppa í stað lóns. Lónið mun fyllast í áranna rás. Í úrskurði hæstv. umhvrh. segir ekkert um hvernig eigi að fara með þetta svæði eða til hvaða aðgerða eigi að grípa. Þó að þessi breyting á náttúrunni verði ekki fyrr en eftir einhverjar kynslóðir eigum við auðvitað ekki að ráðast í svo stórkostlegt inngrip í náttúruna án þess að hafa einhverja hugmynd um hvernig komandi kynslóðir eiga að ráða við þann vanda sem við erum að koma þeim í.

Mótvægisaðgerðir varðandi fok úr Hálslóni eru lagðar til. Þær eru byggðar á verkfræðilegum þáttum. Ég leyfi mér að efa, herra forseti, að með öllu sé séð fyrir því að hægt sé að hefta fok úr lóninu. Hvað varðar staðbundna suðvestanvinda geta þeir, og ég þekki það vel af Héraði, verið svo stífir að það verður erfitt að sjá til þess að fok af börmum lónsins stoppi við í gryfjum. Þetta er eitt sem hefur ekki verið bent á að verði fyllilega hægt að finna mótvægisaðgerðir gegn.

[17:30]

Síðan er stóra málið, kannski það stærsta af öllu, þessi mikli vatnaflutningur á Jökulsá á Dal yfir í Jökulsá í Fljótsdal, sem stríðir gegn nútímahugmyndafræði, nokkuð sem ég hélt bara að við gerðum ekki í dag, við værum ekki að flytja stórfljót á milli vatnasvæða. En það er nú samt sem áður hugmyndin með þessum framkvæmdum.

Við viljum a.m.k. skoða möguleika á nýtingu svæðisins til annarra nota eða til annars konar virkjanamöguleika. Það hefur ekki verið gert. Ákvörðun um stóriðjuna, um álverið í Reyðarfirði, hefur kallað fram þessa tegund virkjunar. Þegar búið er að taka ákvörðun um svo stórt álver er ekki hægt að skoða einhverja aðra kosti virkjunar vegna þess að svo stórt álver krefst þessarar tegundar af virkjun. Stærð álversins og tímasetningar hafa algjörlega stjórnað ferðinni og hefur það sett okkur í þá klemmu að hafa ekki möguleika á að skoða hugsanlega aðra virkjunarkosti og/eða þá nýtingu svæðisins til annarra nota.

Við komum til með að standa í þessum sömu sporum gagnvart öðrum virkjunum, ef farið verður í þær, á meðan við höfum ekki rammaáætlunina, á meðan við höfum ekki eitthvað til þess að leiðbeina okkur við virkjunargerð. Og á meðan núverandi ríkisstjórn situr með þá sýn að koma hér upp stóriðju og nýta vatnsaflið til stóriðjunnar þá er ekki horft til annarra nýtingarmöguleika eða til annars konar orkuþarfar en til stóriðju.

Í úrskurði hæstv. umhvrh. kom það fram að ráðherra telur að meta eigi náttúruna náttúrunnar vegna en ekki setja inn í þjóðhagslegar forsendur. Hæstv. ráðherra gerði það í úrskurði sínum. Því tel ég að úrskurður ráðherra hafi verið þeim mun alvarlegri, þ.e. þessi kúvending umhvrh. á úrskurði Skipulagsstofnunar, þegar hún sleppir þeirri réttlætingu Landsvirkjunr að hinn þjóðhagslegi ávinningur væri svo mikill að þrátt fyrir hin miklu náttúruspjöll væru þessi miklu inngrip í náttúruna réttlætanleg. En þegar hæstv. umhvrh. tekur þennan þátt út úr úrskurðinum, veit maður ekki hvað stendur eftir hjá umhvrh. annað en pólitískur vilji.

Það má líka spyrja sig hvort hæstv. umhvrh. hafi ekki verið í raun vanhæfur til þess að úrskurða í málinu vegna fyrri yfirlýsingar um vilja ráðherrans til þess að fara í þessar virkjunarframkvæmdir.

Herra forseti. Lög um Landsvirkjun eru á þann veg að Landsvirkjun ber að uppfylla þarfir markaðarins, uppfylla orkuþörfina. Því vil ég spyrja: Stöndum við þá bara frammi fyrir því núna að ef eigendur álfyrirtækja, þeirra sem eru í þessum iðnaði úti í hinum stóra heimi, sýna því áhuga að koma hingað --- og þeir hafa nokkrar ástæður til þess að vilja koma hingað og skoða hvort ekki sé rétt að koma sér inn á þennan markað hjá okkur --- eiga þeir þá að ráða ferðinni? Segjum nú að einn stór komi á morgun og banki upp á og sýni mikinn áhuga. Ber þá Landsvirkjun að uppfylla hans þarfir og kröfur? Höfum við ekkert val til að segja nei? Getum við aldrei beðið? Eru það alltaf fyrirtækin, er það alltaf stóriðjan sem rekur okkur áfram án þess að við náum nokkurn tímann að ráða ferðinni? Það er ekki að ástæðualusu að köllum eftir rammaáætluninni, því mér finnst tímabært að við setjum okkur rammann sjálf í stað þess að láta álframleiðendur reka okkur áfram.

Hvers vegna hafa svo álframleiðendur eða stóriðjan áhuga á því að koma hingað? Jú, við erum búin að fá undanþágu frá Kyoto-bókuninni vegna sérstöðu okkar. Hér er hægt að fá ódýrt rafmagn. Við höfum ekki áform um að, það hefur a.m.k. hvergi komið fram, leggja á mengunarkvóta eða láta þessi fyrirtæki greiða mengunarskatt. Þegar hann verður lagður á lítur út fyrir að íslenska þjóðin eigi að borga þann skatt sem kemur vegna mengunar frá Reyðaráli, frá álverinu. Því skyldu þá ekki þessi fyrirtæki hafa áhuga á að koma hingað ef við erum að taka við fyrirtækjum sem hafa ekki lengur möguleika á að koma sér fyrir annars staðar, t.d. í Noregi eins og Norsk Hydro, þar sem kröfurnar eru enn harðari en hjá okkur?

Því í ósköpunum, miðað við alla þessa hönnun, stöðvuðum við ekki hugmyndir Reyðarálsmanna um stærð álversins þegar ljóst varð að skilyrði í úrskurði umhvrh. minnkuðu möguleika á orkunýtingu frá Kárahnjúkasvæðinu? Eða í raun burt séð frá því, því í ósköpunum miðuðum við þá ekki mögulega stærð álversins við Kárahnjúkavirkjun eina og sér? Því leyfum við þessari einu verksmiðju að gera áætlanir um þvílíka stærð að það þurfi að sækja aukaorku norður í Kröflu með háspennulínum yfir hálendið? (Gripið fram í: Vilt þú það?) Ég vil það ekki. (Gripið fram í: Miðað við ...)

Þess vegna segi ég: Því í ósköpunum setjum við ekki álfyrirtækinu stólinn fyrir dyrnar og segjum: Þetta er ekki hægt. Þið fáið ekki leyfi til að hafa framleiðslugetuna meiri en svo að Kárahnjúkavirkjun ein og sér geti annast orkuöflun? Ég bara spyr. Þetta kemur upp í hugann þegar maður les í frv. að það þurfi viðbót frá Kröflu.

Náttúruspjöllin duga til þess að hafna þessum hugmyndum. Náttúruspjöllin eru margvísleg, en ég rek það ekki frekar hér. Við þurfum líka að horfa til efnahagslegra forsendna. Það er alveg nóg að hafna framkvæmdum vegna óafturkræfra náttúruspjalla þó við bætum ekki við efnahagslegri holskeflu sem setur okkur hugsanlega í efnahagslega kreppu, því þó svo að ekki eigi að setja þetta í gang nema að uppfylltum þeim skilyrðum og markmiðum að virkjun og álver tryggi 2,5% meiri landsframleiðslu og 2% hærri þjóðarframleiðslu á framleiðslutímanum þá eru þetta bara spár.

Við vitum að álverð og álframleiðsla í heiminum gengur í djúpum bylgjum. Það eru toppar og það eru líka djúpar lægðir. Efnahagskerfi okkar er svo smátt að það þolir illa miklar sveiflur, ég tala nú ekki um þegar búið er að bæta þessari risaverksmiðju við þær álverksmiðjur sem fyrir eru. Þá verðum við komin með öll eggin í sömu körfuna þannig að sveiflurnar geta orðið mjög djúpar.

En til þess að við setjum okkur ekki í efnahagslega kollsteypu eru líka sett fram ákveðin skilyrði. Seðlabankinn hefur m.a. gert það. Til þess að ráða við verkefnið sem er gríðarlega stórt þarf að búa svo um hnútana að hægt verði að flytja inn aukið vinnuafl. Verðbólga mun aukast og því þarf að grípa til þess ráðs að hækka vexti. Miðað við þá stöðu sem við erum búin að berjast í núna undanfarin tvö ár, sérstaklega í vetur --- ég tala ekki um núna eftir áramótin við að reyna að halda verðbólgunni undir rauða strikinu --- er hollt að velta fyrir sér hvers lags efnahagserfiðleikar geta orðið og hvaða þýðingu þetta getur haft fyrir okkur.

Það verður að draga úr opinberum framkvæmdum. Því tek ég undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún lýsir eftir hugmyndum um á hvaða sviði --- þó ekki sé verið að telja hér upp einstakar framkvæmdir --- ríkisstjórnin telji að dregið verði úr opinberum framkvæmdum. Það er ekki nóg að segja bara: Opinberar framkvæmdir. Verða þetta vegaframkvæmdir? Er þegar búið að ákveða að slá af jarðgangagerð sem er á áætlun? Á að fresta því, eða vegagerð almennt? Á að fresta uppbyggingu hugsanlegs spítala á landspítalalóðinni, eða varðar þetta rekstur velferðarkerfisins í heild sinni? Á hvaða sviði á að draga saman seglin? Ríkisstjórnin hlýtur núna á þessum tíma að vera með einhvern svona grófan ramma a.m.k. eða hugmyndir um hvar hún treysti sér til að skera niður til að mæta þessu. Við erum ekki að biðja um einstakar framkvæmdir, en jarðgangagerð er nokkuð sem manni dettur fyrst í hug að mundi rjúka út af borðinu.

Stærð framkvæmdarinnar er í öllum skilningi risaframkvæmd á mælikvarða okkar. Um er að ræða óafturkræf náttúruspjöll og þau eru í þeim mæli sem aldrei fyrr hafa verið á teikniborðinu. Framkvæmdin setur efnahagslífið í mikla spennu um nokkurra ára skeið. En það verður mjög vandasamt að komast í gegnum þetta tímabil. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég verð að fá að geyma seinni hluta ræðu minnar þar til síðar.