Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 17:48:25 (4740)

2002-02-14 17:48:25# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GunnS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[17:48]

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Það vekur athygli í þessari umræðu að það fer til þess að gera lítið fyrir umhverfisáhrifum þessara framkvæmda. Þegar virkjunarmál norðan Vatnajökuls og fyrirhuguð bygging álvers í Reyðarfirði hafa verið til umræðu þá hefur fyrst og fremst verið rætt um umhverfisáhrif þeirra framkvæmda, bæði hvað varðar virkjunina og síðast en ekki síst gagnvart álverinu sem slíku.

Nú hefur meginþungi umræðunnar fjallað um hin efnahagslegu áhrif og skiljanlegt er að hv. þingmenn vilji ræða hin efnahagslegu áhrif. Ég er mikill áhugamaður um umhverfismál. Ég vil að fólkið í landinu búi í sátt við land og náttúru þess og að nýting sé í samræmi við trúarsið og almennan sköpunarskilning. En þetta kallar á ábyrgð og gerir kröfu um ábyrgð gagnvart náttúru landsins og fólkinu í landinu, þ.e. að fólki sé ekki mismunað með aðgengi að afrakstri náttúruauðlindanna. Það er líka umhverfisstefna og fjallar um umhverfisnytjar.

Uppbygging stóriðju á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið mikil á síðasta áratug. Reist hefur verið álver í Hvalfirði og það síðan stækkað á sama áratug. Síðan hefur álverið í Straumsvík verið stækkað. Þessar framkvæmdir höfðu mikil efnahagsleg áhrif, juku á hagsæld og margir hafa haldið því fram að það hafi verið undirstaða að góðæri sem hér stóð um nokkurt skeið. En þessi hagsæld og þetta góðæri skilaði sér að mjög takmörkuðu leyti út fyrir höfuðborgarsvæðið. Aðeins íbúar höfuðborgarsvæðisins nutu þessa góðæris og hagsældar og það ríkulega. Með öðrum orðum, fólki var í raun mismunað með aðgengi að afrakstri náttúruauðlindanna. Og ekki nóg með það því þetta dýpkaði gjána á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Þessi þensla, þessi uppbygging sogaði til sín fólk af landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið. Hún sogaði fólk til starfa á höfuðborgarsvæðinu og jók enn á byggðavandann.

Það er tími til kominn að landsbyggðin fái að njóta jafnræðis og réttlætis hvað varðar alla almenna uppbyggingu atvinnuvega í landinu. Þetta mál snýst að stórum hluta um það.

Sæmileg sátt var um stóriðjuframkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég segi sæmileg sátt. Alla vega urðu þær framkvæmdir ekki fyrir mikilli ytri truflun og gengu fram samkvæmt fyrir fram gefinni áætlun. Aftur á móti hafa fyrirhugaðar framkvæmdir við virkjun og álver á Austurlandi gengið, svo ekki sé djúpt tekið í árinni, í bylgjum, stundum með kollsteypum. Þessi umræða hefur nú staðið í ein sex ár og það þekkja hv. þm. að íbúar á Austurlandi binda mjög miklar vonir við þessi áform. Fjöldi manns bíður eftir því að framkvæmdir geti hafist og það yrði mikið áfall fyrir Austurland og landsbyggðina alla ef þessi áform rynnu út í sandinn. Það yrði mikið áfall fyrir alla búsetuþróun í landinu af því að búið er að gefa svo mikil og hástemmd fyrirheit og af því að það eru margir sem hafa lagt traust sitt á þessi fyrirheit.

Eigi að síður efast mjög margir um að þetta nái fram að ganga og segja sem svo að svo oft áður sé búið að lofa þessu án árangurs, að við höfum verið svikin áður. Margir trúa ekki fyrr en af verður. Austfirðingar hafa mjög bitra reynslu af þessu vegna þess að stóriðju á Austurlandi hefur áður verið lofað. Áformin runnu út í sandinn og höfðu mjög afdrifaríkar félagslegar afleiðingar á svæðinu, meiri en margan grunar.

Þetta mál er gengið svo langt nú að sem betur fer verður ekki aftur snúið nema af völdum þeirra sem hafa í hendi sinni hvort af þessu verki verður eður ei. Því ræður ekki hið háa Alþingi heldur erlendir fjárfestar, fulltrúar Norsk Hydro. Í gær ræddum við hv. þm. við hæstv. iðnrh. fyrirspurn er ég lagði fram á hinu háa Alþingi um hvort ríkisstjórnin hefði undirbúið aðra valkosti varðandi fjárfesta sem stuðlað gætu að því að álver risi á Reyðarfirði ef samningaviðræður við Norsk Hydro um byggingu álvers verða árangurslausar.

Eins og kunnugt er standa núna yfir viðræður við tvo aðila um sölu Símans. Það standa yfir viðræður við tvo erlenda fjárfesta um sölu Símans. Það þykir við hæfi þar enda eru mjög miklir hagsmunir í húfi að Síminn verði seldur, kannski ekki þjóðhagslegir hagsmunir heldur sýnast það vera orðnir fyrst og fremst pólitískir hagsmunir og afar persónulega tengdir pólitískir hagsmunir eins og umræðan er um þessar mundir.

En í sambandi við byggingu álvers í Reyðarfiði eru öll eggin í einni körfu. Norsk Hydro ræður úrslitum um hvort af þessari framkvæmd verður 1. september. Það er ekki góð staða fyrir málið og það veldur mörgum Austfirðingum verulegum áhyggjum að staðan sé sú að Norsk Hydro ráði hvort þessi áform nái fram að ganga eða ekki.

Svo má heita að um þetta mál sé allbreið samstaða á Austurlandi. Sveitarstjórnarmenn hafa verið einhuga í stuðningi sínum við þessi áform. Á þingum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og í viðhorfskönnunum hefur margítrekað komið fram að mikill meiri hluti Austfirðinga styður þetta verk. Og ljóst er að þetta verkefni mun hafa gríðarlega mikil áhrif á atvinnuuppbyggingu, félagslíf og menningu á Austurlandi. Búist er við því að þetta geti leitt af sér allt að 1.000 ný störf. Við skulum gæta að því að íbúaþróun á Austurlandi hefur verið neikvæð síðasta áratug. Fólki hefur fækkað þar um 1% á ári. Á meðan þjóðin þrefaldaði íbúafjölda sinn á síðustu öld fjölgaði Austfirðingum rétt um rúmlega 3.000 manns þannig að byggðin á þar í vök að verjast. Hún á þar sannarlega í vök að verjast.

Það er ekki rétt sem kom hér fram í máli hv. 5. þm. Austurl. að þetta muni einvörðungu hafa áhrif á Miðausturlandi og kannski smjúga í gegnum göngin á Fáskrúðsfjörð. Þetta mun hafa langtum víðtækari áhrif. Þessi áhrif munu kvíslast um alla firðina allt til Djúpavogs og þau munu líka ná alla leið norður á Vopnafjörð.

[18:00]

Þeir sem hér búa þekkja það að álverin á höfuðborgarsvæðinu eru eftirsóknarverðir vinnustaðir. Þar þykir gott að starfa. Eins og ég þekki til þá eru greidd sæmileg laun þar og fólk starfar þar við góðar aðstæður. Þetta eru með öðrum orðum eftirsóknarverðir vinnustaðir.

Því hefur verið haldið fram í umræðunni að engir fáist til að vinna í álveri á Austurlandi nema útlendingar. Austfirðingar bjóða útlendinga velkomna eins og alla aðra til búsetu. Við gerum ekki greinarmun á fólki eftir litarhætti eða kyni. Við tökum vel á móti öllum. En mér segir hugur um að þetta muni umbreyta og snúa við þeirri öfugþróun sem hefur átt sér stað í sambandi við búsetuna og fólk muni sækja í vinnu á Austurlandi, ekki bara í álveri, heldur í afleiddum störfum sem af áformunum muni leiða og að á Austurlandi muni rísa margir mjög góðir vinnustaðir og þetta muni því auka á fjölbreytni í atvinnulífinu á svæðinu.

Austfirðingar munu þá njóta þeirrar sömu reynslu og höfuðborgarsvæðið hefur ríkulega fengið að njóta á undanförnum áratugum allt frá því álverið í Straumsvík var reist. Það vill nú svo til að ég ólst upp í Hafnarfirði á þeim tíma þegar verið var að byggja álverið. Ég tók meira að segja þátt í þeirri byggingarvinnu. Ég vann síðasta sumarið í Straumsvík við hafnargerðina þar og ég upplifði það vel hve miklar væntingar fyrir Hafnarfjörð álverið í Straumsvík hafði í för með sér. Og mér er mjög vel kunnugt um hvaða hlutverki álverið þar hefur gegnt og hve mikil breyting varð í jákvæða átt í atvinnulífi, menningu og félagslífi eftir að álverið tók til starfa. Þessara jákvæðu áhrifa viljum við fá að njóta á landsbyggðinni líka. Svo einfalt er það mál og er kominn tími til. Þetta er spurning um að sitja við sama borð.

Herra forseti. Því hefur líka verið haldið fram í umræðunni að þessar framkvæmdir feli í sér skammtímagróðavon. Ég er á gagnstæðri skoðun. Ég held að þessi áform feli einmitt ekki í sér skammtímagróðavon eins og reynslan sýnir þar sem ráðist hefur verið í stóriðjuframkvæmdir sem eru einvörðungu í nágrenni við Alþingishúsið. Ég vil að við fáum að njóta þeirrar sömu reynslu sem er akkúrat ekki skammtímagróðavon heldur verða þvert á móti mjög varanlega jákvæð góð áhrif.

Ef ekki verður af þessum áformum óttast ég að við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum búsetuspjöllum sem munu fyrst og fremst bitna á íbúum Austurlands og hafa mjög neikvæð áhrif á byggðaþróun í landinu næstu árin.

Herra forseti. Það mætti segja mörg orð um afskipti hæstv. ríkisstjórnar af þessu máli. Það hefði mátt halda öðruvísi á mörgum þáttum þess í gegnum tíðina. Ég tel eigi að síður núna mjög brýnt að leitað verði allra leiða til þess að skapa sátt um þetta mál, að skapa sömu sátt um þessar framkvæmdir og ríkir núna um stóriðjuframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Það skiptir mjög miklu máli til þess að samningar náist við Norsk Hydro og aðra sem að þessu koma.