Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 18:06:13 (4741)

2002-02-14 18:06:13# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður gerði það að umtalsefni í upphafi máls síns að nokkuð hefði skort á að fjallað væri um umhverfisþáttinn í þessari umræðu sem staðið hefur hér í dag um frv. hæstv. iðnrh. um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Ég hyggst nú bæta úr því og fjalla að nokkru leyti um umhverfisþáttinn í þessu stóra máli.

Í tilefni af því langar mig í upphafi máls míns, herra forseti, að vitna í áskorun sem alþingismönnum barst í dag frá Náttúruverndarsamtökum Íslands. Sem kunnugt er hafa hafa þau samtök beitt sér af alefli í baráttunni fyrir því að umhverfisþátturinn verði skoðaður af sanngirni til hlítar og þau hafa gagnrýnt sviðsetningu hæstv. umhvrh. á viðbótarumhverfismati sem fram fór í umhvrn. frá því 1. ágúst og fram til 21. desember sl.

Náttúruverndarsamtök Íslands segja í yfirlýsingu sinni frá í dag að það sé algerlega nauðsynlegt að alþingismenn skoði af alvöru alla þætti málsins og sérstaklega þá að farið verði samkvæmt lögum með þessi mál, og þau vitna til 3. mgr. 13. gr. laga um Landsvirkjun, en í þeirri grein segir um samninga um orkusölu til stóriðju, með leyfi forseta:

,,Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðherra valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið.``

Herra forseti. Það er alveg ljóst að Náttúruverndarsamtök Íslands hafa af því miklar áhyggjur að þessi grein laganna um Landsvirkjun verði brotin með þeim framkvæmdum sem ríkisstjórnin virðist stefna í. Áskorun Náttúruverndarsamtaka Íslands til okkar þingmanna er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Náttúruverndarsamtök Íslands skora á þingmenn að gera mjög skýra kröfu um að fyrir liggi áreiðanlegt mat á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar, að frumvarp iðnaðarráðherra standist 3. mgr. 13. gr. laga um Landsvirkjun. Að öðrum kosti verði framkvæmdaraðila gert að fjármagna hana án ríkisábyrgðar á lánum. Ekki er hægt að ætlast til þess að Alþingi leggi dóm á arðsemina á grundvelli aðferðafræðinnar einnar saman, sem Orkustofnun hefur skrifað upp á, án þess að forsendur og niðurstöður liggi fyrir. Miklar fjárhæðir eru í húfi fyrir skattgreiðendur þar sem ætlast er til að ríkið gangi í ábyrgð fyrir stórfelld lán Landsvirkjunar vegna framkvæmdarinnar.``

Náttúruverndarsamtökin kölluðu til liðs við sig snemma í ferli þessa máls hagfræðing sem skilaði þeim öflugri skýrslu sem laut að arðsemisþáttum þessarar virkjunar. Hagfræðingurinn var Þorsteinn Siglaugsson og í stuttu máli sagt þá tætti hann forsendur Landsvirkjunar fyrir arðseminni í sig. Hann mætti fulltrúum Landsvirkjunar á nokkrum fundum. Ég var viðstödd a.m.k. einn þessara funda þar sem hagfræðingur Náttúruverndarsamtakanna mætti fjármálastjóra og fleiri háttsettum fulltrúum Landsvirkjunar. Þar var tekist á um forsendur Landsvirkjunar fyrir arðseminni, jafnvel þó svo orkuverðið lægi ekki fyrir, og það verður að segjast eins og er, herra forseti, að rök Landsvirkjunar voru afar veik í þeirri baráttu. Það sama verður að segja um rök Landsvirkjunar í öllu umhverfismatsferlinu, fyrst í matsskýrslunni. Það er auðvitað til skammar hvernig Landsvirkjun gerði grein fyrir hinum efnahagslega og þjóðhagslega þætti í umhverfismatsskýrslunni sjálfri. Rök Landsvirkjunar voru líka veik síðar í matsferlinu, í hinu sviðsetta viðbótarmati umhvrh. Hvað gerði Landsvirkjun þá? Jú, hún kallaði til einhverja japanska fjármálaspekúlanta sem voru fengnir til að blessa aðferðina sem Landsvirkjun hafði notað til að reikna út arðsemina. Japanska fjármálastofnunin var sem sagt látin segja okkur að Landsvirkjun kynni að reikna. En ekkert mat var lagt á forsendurnar. Nú verður það að gerast, herra forseti, hér í umfjöllun þessa máls á hinu háa Alþingi að þessar forsendur verði skoðaðar frá grunni. Það þarf að gera í þingnefndum sem nefndar hafa verið hér til umræðunnar og það hlýtur að vera alger krafa að þetta mál komi til ítarlegrar skoðunar í þremur þingnefndum, hv. iðnn. sem hér hefur verið nefnd, efh.- og viðskn. og að sjálfsögðu umhvn. Þessar þrjár þingnefndir eiga ærið starf fyrir höndum við að fara ofan í þessa hluti og það á eftir að kalla eftir ýmsum gögnum og skýrslum í þeim efnum.

Það er auðvitað algerlega óforsvaranlegt að hæstv. iðnrh. skuli láta fylgja sem fylgiskjal í frv. sínu einhvers konar blessun Orkustofnunar á aðferðafræði Landsvirkjunar. Orkustofnun blessar reikningsaðferðafræði Landsvirkjunar eins og Japanarnir voru búnir að gera. En af hverju sjáum við ekki sem fylgiskjal með þessu frv. álit Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem Skipulagsstofnun kallaði eftir þegar hún var með málið til athugunar? Í áliti Hagfræðistofnunar eru ýmis rök að því leidd að Þjóðhagsstofnun vaði reyk í áliti sínu, að þar séu rangar forsendur gefnar og rangar ályktanir dregnar. Það er algert skilyrði að þetta álit Hagfræðistofnunar verði hér uppi á borðum hv. þm. þegar þeir fara að skoða þessi mál ofan í kjölinn.

Herra forseti. Hagfræðingur sá sem ég nefndi til sögunnar áðan, Þorsteinn Siglaugsson, er sannarlega ekki eini hagfræðingurinn sem tjáð hefur sig um þessi mál. Það hafa margir gert. Hér hefur verið nefnd til sögunnar grein sem hagfræðingurinn Sigurður Jóhannesson skrifaði í Vísbendingu þann 14. desember sl. Sigurður hefur skrifað um þessi virkjunarmál og orkusölumál um langa hríð og þekkir þar afar vel til. Hann segir í grein sinni í Vísbendingu að hér sé um að ræða framkvæmd sem njóti gífurlegrar meðgjafar hins opinbera. Ég ætla að fá að vitna í þessa grein, með leyfi forseta. Sigurður fjallar um þrenns konar meðgjöf:

,,Ríki og bæir leggja þrenns konar meðgjöf til Kárahnjúkavirkjunar:

Þau ábyrgjast lán vegna hennar. Þess vegna eru vextir af lánunum mjög lágir ... En ábyrgðin er ekki ókeypis, hún setur þá í hættu sem veita hana. Hún léttir kostnaði af virkjuninni og flytur hann yfir á ríki og bæi. Ef skapa mætti verðmæti með ríkisábyrgðum ætti ríkið að baktryggja miklu fleiri fyrirtæki en virkjanir.

Ekki er greiddur tekju- og eignarskattur af virkjuninni eins og öðrum fyrirtækjum hér á landi.

Þriðja meðgjöfin, og sú sem erfiðast er að meta til fjár, er land undir virkjunina.``

Herra forseti. Erum við þá komin að því máli sem ég gerði að umræðuefni fyrir tæpum tveimur vikum þegar Vinstri hreyfingin -- grænt framboð flutti hér þáltill. sína um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Þá nefndi ég til sögunnar grein sem birtist í nýjasta tölublaði Glettings sem fjallar um skilyrt verðmætamat. Það er aðferð hagfræðinnar sem hún hefur verið að þróa með sér undanfarna áratugi og hefur náð mjög miklum árangri með. Þessi aðferð býr til verðmiða á land, ósnortna náttúru. Það hefur farið fram rannsókn, herra forseti, hér á Íslandi varðandi Kárahnjúkasvæðið og það er alveg ljóst að þjóðin er tilbúin til að greiða umtalsverðar upphæðir fyrir það að ekki verði farið í þessar framkvæmdir. Þær upphæðir samanlagðar nema hundruðum milljóna. Samkvæmt könnun sem gerð er grein fyrir í tímaritinu Glettingi og er gerð af ungri vísindakonu sem heitir Nele Lienhoop, er meðgjöf okkar til Landsvirkjunar í formi lands hundruð milljóna króna virði. Það er þetta skilyrta verðmætamat sem er auðvitað algjör forsenda fyrir því að hægt sé að fara út í framkvæmdir af þessu tagi, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga hæstv. ríkisstjórnar um afgjald auðlinda. Er þá hægt að taka undir orð hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur sem hér í ræðu sinni fyrr í dag fjallaði um auðlindapólitík.

[18:15]

Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin talar tveimur tungum í auðlindapólitík sinni. Ef við ætlum að samþykkja afgjald af auðlindinni ,,fiskstofnum``, af hverju er þá ekki verið að fjalla hér um afgjald af auðlindinni ,,ósnortinni náttúru``? Af hverju er ekki samræmi í hlutunum? Er ekki eðlilegt að gerð sé krafa um slíkt? Ég hefði haldið það.

Grein Sigurðar Jóhannessonar í Vísbendingu heitir: Látum markaðinn meta Kárahnjúkavirkjun. Það er dálítið merkilegt, herra forseti, að þegar þau sjónarmið eru skoðuð hvort þetta mundi borga sig og hvort í þetta yrði farið ef um einkaframkvæmd væri að ræða, þá liggur það algjörlega á borðinu, staðfest af fjármálastjóra Landsvirkjunar, að það væri ekkert vit í að fara í þessa framkvæmd ef um einkaframkvæmd væri að ræða.

Fjármálastjóri Landsvirkjunar, Stefán Pétursson, hélt erindi á orkuþingi 2001. Þar fjallaði hann á afar greinargóðan hátt um raforkumarkaðinn, fjármögnun og samkeppnishæfni íslensks orkuiðnaðar. Hann sagði í niðurstöðu erindis síns að hlutafélagavæðing væri nær ómöguleg ef virkja ætti fyrir stóriðju þannig að ef hæstv. iðnrh. ætlar á næstunni að breyta öllu raforkuumhverfi á Íslandi og hlutafélagavæða fyrirtæki á orkumarkaði þá er alveg ljóst að slík fyrirtæki hafa ekki bolmagn til að virkja fyrir stóriðju. Er þá undarlegt þó að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir spyrji í ræðu sinni hvað sé verið að gera hér á harðahlaupum áður en nýtt umhverfi á raforkumarkaði lítur dagsins ljós? Auðvitað er eðlilegt að spurt sé: Er verið að koma hér í framkvæmd þessari tröllauknu óafturkræfu Kárahnjúkavirkjun áður en umhverfi á raforkumarkaði breytist svo mikið að ekki verður hægt að virkja fyrir stóriðju meir?

Má ég þá spyrja hæstv. iðnrh. og ég krefst þess að fá svar við þeirri spurningu minni: Í þessu plaggi er að finna lista yfir virkjunarkosti fram til 2012 sem Orkustofnun telur mögulega. Er þetta rammaáætlun ríkisstjórnarinnar? Eru þetta framkvæmdirnar, á bls. 24, sem hæstv. ráðherra ætlar að vera búin að koma í framkvæmd áður en umhverfi á raforkumarkaði breytist? Ætlar hæstv. ráðherra þá að vera búin að láta Alþingi samþykkja að vaðið verði í stækkun Laxár, 3. áfanga Kröflu, Búðarhálsvirkjun, Norðlingaölduveitu, Bjarnarflag, 1. áfanga Reykjaness, Villinganes, Skaftárveitu, Urriðafossvirkjun, Núps- og Búðafossvirkjun, Hellisheiði, alla þrjá áfangana, og Grændal og 4. áfanga Kröflu og Þeistarreyki og Skjálfandafljót og Skatastaðavirkjun, Markarfljót, Grændal? Hvað ætlar hæstv. iðnrh. okkur að vera búin að virkja marga þessara kosta fyrir stóriðju áður en umhverfi á raforkumarkaði breytist og búið verður að hlutafélagavæða þar allt þannig að ekki verður hægt að selja neitt til stóriðju?

Má líta svo á að hér sé um að ræða rammaáætlun hæstv. iðnrh.? Ef svo er þá lýsi ég andstöðu við þessa rammaáætlun.

Herra forseti. Það er ekki forsvaranlegt að hér skuli lagt fram plagg, einhver greinargerð Orkustofnunar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði með hliðsjón af stækkun álvera á Suðvesturlandi og öðrum orkuþörfum, ef ekki er ætlast til að við tökum það alvarlega. Það er alveg greinilegt á hvaða skriði hæstv. iðnrh. er svo það er ekki skrýtið þótt spurt sé: Hvað á að gera mikið áður en umhverfið á raforkumarkaði breytist?

Herra forseti. Einn hagfræðing ætla ég að nefna til sögunnar enn sem hefur gagnrýnt mjög málefnalega niðurstöðu Landsvirkjunar varðandi arðsemina. Það er Þórólfur Matthíasson, hagfræðingur og dósent við Háskóla Íslands. Hann var einn af sérfræðingum sem Landvernd fékk til að rýna í umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar á sínum tíma. Umsögn hans er hægt að lesa á heimasíðu Landverndar. Það þarf ekki að fara um hana mörgum orðum en Þórólfur gefur aðferðafræði Landsvirkjunar algjöra falleinkunn. Telja mætti upp fleiri hagfræðinga. Álit þessara hagfræðinga allra þurfum við þingmenn að skoða ofan í kjölinn í þessari umræðu.

Þá ætla ég að snúa mér að umhverfisþætti málsins, herra forseti, af því að hér er takmarkaður ræðutími og ekki langur tími eftir.

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur gerði á sínum tíma samantekt fyrir Náttúruverndarráð, það var árið 1978, um fjölda og margbreytileika fossa á Íslandi. Í þeirri samantekt getur að líta eftirfarandi varnaðarorð sem ég held að geti verið hv. alþingismönnum gott veganesti inn í þá vinnu sem fram undan er.

Sigurður skrifaði, með leyfi forseta:

,,Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílóvattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.``

Herra forseti. Orð af þessu tagi þurfa hv. þm. að hafa í huga þegar um þetta mál er fjallað. Hvernig ætlum við að meta unaðsstundirnar, öræfakyrrðina, fuglasöng í óbyggðum? Ætlum við ekki að meta þessa þætti nokkurs? Ætlum við að sætta okkur við einhvern málamyndaþjóðgarð innan um virkjunarmannvirki, 190 metra háa stíflu við fremri Kárahnjúk? Ég man ekki lengur hæðina á Desjarárstíflu eða Sauðárdalsstíflu. Þjóðgarður innan um skurði, jarðgöng, námasvæði, efnistökusvæði, stöðvarhús. Ég held ekki, herra forseti. Þjóðgarður af þessu tagi yrði Íslendingum ekki til sóma.

Þjóðgarður af því tagi sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt til að verði stofnaður á hálendi Íslands gæti hins vegar vakið þvílíka athygli á Íslandi sem náttúruperlu að tekjurnar sem við gætum haft af slíkum þjóðgarði, beinar og óbeinar, mundu vega upp allar mögulegar tekjur sem hæstv. iðnrh. er búinn að reikna sér með hjálp Orkustofnunar af stóriðjunni. (KPál: Hvernig veistu það?) Ég hef fengið útreikninga sem sýna mér fram á það, hv. þm. Kristján Pálsson. (KPál: Hvar eru þeir?)

Meira um umhverfisþátt þessara mála, herra forseti, af því að ég lofaði að halda mig við hann. Þó að ég geti sagt mikið um útreikninga og arðsemi liggur mér talsvert á hjarta um það mat sem hæstv. umhvrh. hefur lagt á þessi mál öll sömul og ég tel vera fullt tilefni til að fara nokkrum orðum um úrskurð hæstv. umhvrh. þar sem hann er tekinn með mjög afgerandi hætti inn í greinargerð þess frv. sem við fjöllum hér um.

Herra forseti. Það er athyglisvert hversu illa rökstuddur úrskurður umhvrh. er. Í honum er ekki að finna rökstuðning fyrir niðurstöðunni í aðfaraorðum og í meginmáli úrskurðarins lýsir hæstv. umhvrh. sig ekki ósammála málefnalegum rökum sem tilgreind eru víða í úrskurði Skipulagsstofnunar um neikvæð óafturkræf umhverfisáhrif. Satt að segja tekur hæstv. umhvrh. undir fjöldann allan af faglegum rökum Skipulagsstofnunar, vísar jafnvel efnislega til þeirra raka. Það lítur út fyrir að hæstv. umhvrh. sé nokkurn veginn sammála Skipulagsstofnun þegar úrskurðurinn er skoðaður til hlítar, nema að einu leyti. Að hvaða leyti? Niðurstöðunni.

Skipulagsstofnun segir: Hér er um svo mikil og óafturkræf áhrif að ræða að það verður að leggjast gegn þessari framkvæmd. Umhvrh. virðist sammála öllum faglegum rökum Skipulagsstofnunar nema bara ekki því að það þurfi að leggjast gegn framkvæmdinni. Það eina sem umhvrh. gerir í úrskurði sínum er að hún snýr niðurstöðunni við vegna pólitískra hagsmuna. Þetta er pólitísk valdbeiting. Það er ekki hægt að kalla þetta nokkurn skapaðan hlut annað. Ef hæstv. umhvrh. er samþykk faglegum rökstuðningi Skipulagsstofnunar algjörlega fram á síðustu línu þá er ekki hægt að skýra niðurstöðu hennar á neinn annan hátt.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er lokið en ég á mikið eftir. Ég kem að einhverjum þeirra atriða í síðari ræðu minni en kalla þetta gott hér að sinni.