Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 18:28:33 (4744)

2002-02-14 18:28:33# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur farið hér mikinn gegn Kárahnjúkavirkjun eins og maður gat svo sem búist við eftir að hafa heyrt í þingmönnum Vinstri grænna hér í dag. Að þeirra mati er fyrst og fremst gerð athugasemd við arðsemi þessarar virkjunar og framkvæmdar yfirleitt. Ekki var mikið rætt um umhverfisþáttinn nema að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á hann hér í lokin.

Mér þótti gott að hún skyldi gera það. Hv. þm. hefur sagt í þinginu, og það oftar en einu sinni, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð bæði fyrst og fremst um að farið yrði með framkvæmdir eins og þessa í umhverfismat, lögformlegt umhverfismat. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði hér orðrétt þegar umræður stóðu yfir um Eyjabakkana, með leyfi forseta:

,,Það hefur komið fram hjá okkur sem höfum talað hér í dag fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við erum með útrétta sáttarhönd. Sáttarboðið felst í því að Fljótsdalsvirkjunin fari í umhverfismat samkvæmt lögum og við komum til með að beygja okkur undir þann úrskurð sem kæmi út úr því mati.``

Hv. þm. sagði einnig í þessu sama andsvari:

,,Ef þetta er ekki sáttarhönd hjá fólki sem er á móti stórvirkjunum á hálendinu norðan Vatnajökuls, þá veit ég ekki hvað.``

Núna þegar þessi stórvirkjun hefur farið í umhverfismat og hefur fengið ... (Gripið fram í.) Samkvæmt lögunum hefur hún verið samþykkt. Lögin gera ráð fyrir ákveðnum skrefum, annars vegar skipulagsstjóra og hins vegar ráðherra. Ráðherra hefur fellt úrskurð sinn um að hún fallist á þessa virkjun með þeim breytingum sem lagðar eru til samkvæmt tillögu ráðherrans.

Nú spyr ég fyrst hv. þm. hefur lýst því yfir að hún hafi rétt fram ákveðna sáttarhönd í þessu máli, hvort það gildi ekki þegar kemur að þessari virkjun, eða var þetta bara allt í plati?