Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 18:30:50 (4745)

2002-02-14 18:30:50# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[18:30]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. veit fullvel að það átti að þjösna Fljótsdalsvirkjun hér í gegn þvert ofan í lög um mat á umhverfisáhrifum svo það var algerlega eðlilegt að lög um mat á umhverfisáhrifum væru í brennidepli umræðunnar um Fljótsdalsvirkjun og krafan um að sú virkjun færi í gegnum slíkt mat. Það er því ekki réttmætt hjá hv. þm. að blanda saman umræðunni um Fljótsdalsvirkjun og umræðunni um Kárahnjúkavirkjun.

Það breytir því ekki að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur alla tíð, líka í umræðunni um Fljótsdalsvirkjun, sagt: Við erum á móti því að fórna náttúruperlunum okkar fyrir stóriðju. Við viljum að rammaáætlun til langs tíma verði gerð, allir virkjunarkostir skoðaðir, allir hagsmunaaðilar komi að því máli svo að við getum raðað upp virkjunarkostum í sameiningu þar sem minnstar fórnir verða og við getum ákveðið í sameiningu til hvers við ætlum að nýta þessa orku. Ég sagði fyrir nokkrum dögum við hv. formann iðnn. að ég mundi vaða með honum eld og brennistein til að vetnisvæða Ísland á 30 árum. Reyndar var það með því skilyrði að hann léti af þessari stóriðjustefnu sinni. En hv. þm. verður að hafa það í huga að umhverfismatið á Kárahnjúkavirkjun fékk falleinkunn. Hæstv. umhvrh. tekur í úrskurði sínum undir faglega röksemdafærslu Skipulagsstofnunar algerlega fram að síðustu línu, þ.e. þegar niðurstaða Skipulagsstofnunar er skráð. Og ég vil fullyrða það hér, herra forseti, að ef hæstv. umhvrh. hefði haft kjark hefði hún getað staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar en látið ríkisstjórnina fara áfram með þessar framkvæmdir þvert ofan í neikvætt mat Skipulagsstofnunar, mat þar sem lagst var gegn framkvæmdinni á grundvelli umhverfisáhrifanna. En það þorði hæstv. umhvrh. ekki að gera og lét beygja sig pólitískt til þess að snúa niðurstöðu Skipulagsstofnunar við. Hún afskræmir niðurstöðuna með því að gangast undir og viðurkenna fagleg rök en snúa svo niðurstöðunni við.