Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 18:36:27 (4748)

2002-02-14 18:36:27# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal ásamt stækkun Kröfluvirkjunar. Þetta frv. er liður í stóriðjudraumum ríkisstjórnarinnar þar sem engu skal eira. Fyrirhuguð Kárahjúkavirkjun ein sér, virkjun þessara tveggja Jökulsáa, hefur í för með sér meiri náttúruspjöll og jarðrask og óafturkræfar breytingar á landslagi og náttúrufari en nokkru sinni hefur verið efnt til af manna völdum hér á landi og þótt víðar væri leitað.

Virkjunaráformin byggja á stórfelldum vatnaflutningum á milli byggðarlaga, milli vatnasvæða með tilfærslu m.a. Jökulsár á Dal austur í Lagarfljót með ófyrirsjáanlegu raski á náttúrufari og lífríki til lands og sjávar.

Rétt er að minna á að Skipulagsstofnun hafnaði alfarið framkvæmdinni, m.a. á umhverfislegum forsendum, og þó að reynt sé að meta náttúrufarsleg áhrif svona gífurlega mikilla náttúruraskana verður þar aldrei nema um ágiskun að ræða. Aðeins reynslan getur í raun skorið úr um hver hin endanlegu áhrif verða og þau geta komið fram áratugum og jafnvel hundruðum ára eftir að þau hafa verið framkvæmd. Þetta er rétt að hafa í huga þegar við umgöngumst náttúruna og auðlindir hennar.

Eftir þær pólitísku yfirlýsingar sem bæði hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., gáfu í kjölfar úrskurðar Skipulagsstofnunar þar sem þeir ítrekuðu að áfram væri stefnt að þeim vilja ríkisstjórnarinnar að fyrirhuguð virkjunaráform næðu samt fram að ganga þó að Skipulagsstofnun hefði hafnað þeim í úrskurði sínum kom fæstum á óvart í sjálfu sér þegar hæstv. umhvrh. úrskurðaði á annan veg en Skipulagsstofnun, þ.e. að heimila Kárahnjúkavirkjun á umhverfislegum forsendum.

Þegar úrskurður umhvrh. lá fyrir gáfu m.a. nokkur helstu umhverfissamtök á Íslandi frá sér yfirlýsingu sem viðbrögð við úrskurði hæstv. umhvrh. Nú ætla ég að vitna í yfirlýsingu þessara níu umhverfissamtaka. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að Kárahnjúkavirkjun mundi valda margfalt meiri náttúruspjöllum en nokkur einstök framkvæmd á Íslandi til þessa er niðurstaða ráðherra`` --- þ.e. hæstv. umhvrh. --- ,,óskiljanleg. Veruleg og óafturkræf áhrif virkjunarinnar, sem Skipulagsstofnun byggði úrskurð sinn á, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, blasa við hverjum þeim sem kynnir sér framkomnar upplýsingar. Tæpast er hægt að ímynda sér stórfelldari röskun af mannavöldum á náttúru landsins.

Í þessu sambandi er minnt á eftirfarandi:

Kárahnjúkavirkjun mun eyðileggja eitt stærsta hálendisvíðerni í Evrópu með mannvirkjagerð á um 1.000 km2 svæði og spilla fjölbreyttu gróðurlendi á allt að 600 km2 svæði, sem er hluti af samfelldri gróðurþekju frá sjó inn til jökla. Líta ber á hálendisgróður ofan við 500 m hæð sem fágæta og verðmæta auðlind.

Ómetanlegar jarðfræðiminjar og landslagsheildir á heimsvísu yrðu eyðilagðar eða þeim raskað verulega með virkjunarframkvæmdunum.

Meira en 100 fossar yrðu fyrir röskun af völdum virkjunarinnar og sumir þeirra hyrfu alveg.

Stórfelldir vatnaflutningar einkenna virkjunina þar sem m.a. eitt stærsta vatnsfall landsins, Jökulsá á Dal, yrði flutt á milli vatnasviða og veitt í Lagarfljót.

Nánast ekkert vatnakerfi á virkjunarsvæðinu stæði eftir óraskað. Lífríki í stöðuvötnum og fjölmörgum ám mun eyðast eða raskast verulega, einangruðum stofnum verður útrýmt eða þeim blandað saman við aðra stofna.

Þýðingarmikil varpsvæði og fjaðrafellisstaðir fugla eyðilegðust á sjálfu virkjanasvæðinu og samfara vatnaflutningum á Úthéraði. Mikilvæg búsvæði hreindýra og sela mundu raskast eða eyðileggjast.

Standi úrskurður umhverfisráðherra mun hann hafa fordæmisgildi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og stefna í hættu þeim miklu verðmætum sem felast í íslenskri náttúru og landslagi.``

Virðulegi forseti. Þetta er ályktun níu umhverfissamtaka og viðbrögð við úrskurði umhvrh.; samtakanna Sól í Hvalfirði, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Náttúruverndarsamtaka Vesturlands, Náttúruverndarsamtaka Austurlands, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, Fuglaverndunarfélags Íslands, Landverndar, Umhverfisverndarsamtaka Íslands og Félags um verndun hálendis Austurlands.

Er ekki rétt og mikilvægt, herra forseti, að geta þess hér hvernig þessir aðilar, öflug félagasamtök almennings, sem bera hag náttúru landsins fyrir brjósti tjá sig um þetta mál?

Herra forseti. Þótt við lifum hér, og við lifum reyndar stutta stund hvert okkar en lífið sjálft er vonandi eilíft, hefur náttúran sinn eigin sjálfstæða rétt og við höfum ekki vald og ekki rétt til að ganga á náttúruna, auðlindir hennar og fjölbreytileika, og möguleika til framtíðar til að bregðast við í fjölbreytni lífsins á ókomnum öldum. Við höfum ekki rétt til að ganga vísvitandi á rétt náttúrunnar.

Leiðari Morgunblaðsins 30. jan. sl. ber yfirskriftina ,,Lífsviðurværi framtíðarinnar``. Ég hvet áheyrendur til að lesa þennan ágæta leiðara Morgunblaðsins. Í honum er lagt út af greinum sem birtust í Morgunblaðinu nokkrar helgar á undan sem unnar voru af einum blaðamanna Morgunblaðsins, Rögnu Söru Jónsdóttur, sem fór yfir ,,þróun íslensks atvinnulífs undanfarna áratugi, tók saman stöðuna á okkar dögum og fjallaði um þá kosti og möguleika, sem leynast kunna í framtíðinni``, eins og segir orðrétt í inngangi þessa ágæta leiðara. Í leiðaranum segir annars, með leyfi forseta:

[18:45]

,,Deilurnar um virkjunarmálin bera því sennilega einna helst vitni hvað margt hefur breyst á undanförnum áratugum hér á landi. Umhverfissjónarmiðum vex stöðugt ásmegin og áreksturinn milli náttúru og manns hér á landi fær ekki síst aukna merkingu þegar horft er til landanna í kring og hvernig hið manngerða hefur víðast hvar náð yfirhöndinni þar. Á hinn bóginn má velta því fyrir sér hversu sterk umhverfissjónarmiðin eru þegar harðnar í ári og ákveða þarf hvort fórna eigi lífsgæðum fyrir þau.``

Herra forseti. Íslenska þjóðin hefur lifað þá tíma að svo hart var í ári að hún neyddist til að ganga á orkuauðlindir sínar. Skógurinn og birkikjarrið voru orkuauðlindir okkar um aldir. Þetta er auðlind sem ber að vissu marki hæfilega nýtingu. Auðlindir geta þannig endurnýjað sig og verið nýttar með sjálfbærum hætti. Þannig var staðan í gegnum aldirnar. Við áttum ekki annars úrkostis en að ganga á þessa orkuauðlindir. Þessari orkuauðlind, skóginum og kjarrinu, var eytt hraðar en hún fékk endurnýjað sig. Nú finnst okkur sem lifum í dag landið nakið, gróður og lífrænn jarðvegur hvarf í kjölfar þess sem margur mundi vilja kalla rányrkju á orkuauðlindum landsins.

Nú er eindreginn þjóðarvilji til að bæta úr, endurheimta skóg og gróður og endurheimta lífræna orku landsins. Margir vildu sjá meira fjármagni til varið og stærri skref stigin í endurheimt þessara náttúruauðlinda.

Orkan sem býr í fallvötnum hér á landi á sér líka takmörk. Hún er ekki ótakmörkuð. Orkuverið sem við erum hér að tala um, orkuver við Kárahnjúka, er ekki orkuver þar sem orkan er nýtt með sjálfbærum hætti. Orkuverið krefst mikillar mannvirkjagerðar, mikils jarðrasks og krefst þess að gert verði stórt uppistöðulón. Þetta uppistöðulón tekur svo við framburði frá jökulvötnum og sest þar til.

Það gæti tekið 100, 200 eða 300 ár að fylla þetta lón af framburði þannig að virkjunin hafi ekki þá starfshæfni sem ætlast er til af henni. Hvort sem það tekur 100, 200 eða 300 ár þá er hún ekki sjálfbær virkjun. Hún er reist á tímabundinni neyslulöngun, vonandi verður það ekki kallað græðgi. Eitt er þó víst, þ.e. að þessi orkuauðlind okkar er ekki endurnýjanleg þegar litið er til lengri tíma, nokkur hundruð ára.

Ég minntist á skóginn og birkikjarrið sem við hörmum nú að hafi af illri nauðsyn þurft að ganga á í gegnum aldirnar, nauðsyn fólks sem ekki fann aðrar leiðir til að afla sér orku. Viljum við fá þann sama dóm á okkur eftir 500 ár eða 300? Árhundruðin skipta ekki máli. Það sem skiptir máli er hvort við umgöngumst náttúruauðlindir okkar, þessar dýrmætu náttúruauðlindir, af þeirri virðingu og umhyggju sem þeim ber og göngum ekki á þær þegar nauðin rekur okkur ekki til þess. Inn á þetta er komið í forustugrein Morgunblaðsins, sem ég hvet hv. þm. Kristján Pálsson og aðra þingmenn Sjálfstfl. til að lesa. Ég hvet þá til að kynna sér þá sýn sem þar er lögð fram.

Herra forseti. Það er fyllsta ástæða til að staldra við. Býður efnahagsleg staða landsins okkur að ganga á sjálfbærni náttúruauðlinda okkar? Ég segi: Alls ekki. Nei. Við vildum jú hafa það betra og eignast þetta og hitt. En hagur Íslendinga er þannig að við getum ekki varið það að ganga á endurnýjanlega orku okkar með þeim hætti að hún skaðist og tapist til lengri tíma.

Herra forseti. Við þessa umræðu hefur verið rætt um að þetta sé nauðsynleg byggðaaðgerð, að ráðast í þessar framkvæmdir við Kárahnjúka og Reyðarál. Nú er það svo, herra forseti, ef við lítum á landið í heild og þjóðina í heild að þjóðin hefur það í heild gott, þó að vissulega búum við við búsetu- og atvinnuörðugleika sums staðar á landinu. En í heild sinni hefur þjóðin það gott. Það ætti ekki að reka okkur til að grípa til örþrifaráða eins og ég tel að hér mundi verða með mestu risaframkvæmd sem við höfum farið í hér á landi. Orka okkar er takmörkuð og nú þegar fer um eða yfir 60% af raforku okkar til stóriðju. Verði ráðist í þær stóriðjuframkvæmdir sem hafa verið nefndar og eru á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og sömuleiðis í þær virkjunarframkvæmdir sem þarf til að mæta þeirri orkuþörf, það er meira en tvöföldun á orkuframleiðslunni í dag, mun megnið af orkuframleiðslu okkar fara til stóriðju. Nú fara 60% af heildarraforkuframleiðslunni til stóriðju. Verði af hinum draumunum, með Kárahnjúkavirkjun og aðrar virkjanir og stóriðjuframkvæmdirnar sem fyrirhugaðar eru, munu um eða yfir 80% af heildarraforkuframleiðslunni fara til stóriðju, stóriðju einnar tegundar framleiðslu. Engin heilvita þjóð mundi haga sér svo í atvinnumálum fengi hún þar með vitsmunalegum hætti um ráðið.

Svo ég vitni aftur, með leyfi forseta, í ágæta forustugrein Morgunblaðsins þá er rætt um að framkvæmdirnar sem hér er verið að ráðast í séu ríkisstýrðar. Þetta eru ríkisframkvæmdir, framkvæmdir sem íslenska ríkið ætlar að bera fjárhagslega ábyrgð á. Þetta eru ríkisstýrðar framkvæmdir, hvort sem er þessi virkjun við Kárahnjúka eða Reyðarál.

Í ágætri forustugrein Morgunblaðsins stendur, með leyfi forseta:

,,Velgengni framtíðar verður sennilega aldrei tryggð með því að þvinga íslenskt atvinnulíf í ákveðinn farveg. Lögmálið um að setja ekki öll eggin í sömu körfuna á ekki aðeins við um sjávarútveg eins og sást þegar netfyrirtækjabólan sprakk eftir að væntingar höfðu verið keyrðar upp úr öllu valdi. Það hefði ekki verið gott að hafa öll eggin í þeirri körfu. Hins vegar er hægt að búa atvinnulífinu lífvænleg skilyrði með ýmsum hætti, ekki síst með aukinni áherslu á menntun eins og margir viðmælendur ítrekuðu, og ýta undir vaxtarsprota í þeim greinum, sem lofa mestu, án þess að gleyma möguleikunum, sem felast í hinu óvænta.``

Í þessari forustugrein, virðulegi forseti, er einnig bent á að Íslendingar standa langt að baki nágrannaþjóðunum í að nýta sér útflutning á þekkingariðnaði. Íslendingar eru einungis með 6% af sínum útflutningsafurðum í formi hátækniiðnaðar en þetta hlutfall er 20% í Finnlandi og 29% í Bandaríkjunum.

Virðulegi forseti. Við eigum mörg tækifæri önnur en að ráðast í þessa virkjun með þeim hætti sem hér er lagt til.