Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:01:55 (4755)

2002-02-14 20:01:55# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:01]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Jafnvel þó ekkert verði af þessum framkvæmdum þá þurfum við þingmenn að taka afstöðu til málsins. Það verður gert hér í sölum Alþingis að öllum líkindum, ég efast reyndar ekkert um að þetta mál fari svo langt.

Þess vegna fannst mér fróðlegt að vita með hvaða hætti Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mundi standa að því. Ég tel ekki fullkomið samræmi í að leggja til þetta tvennt sem ég var að lýsa hérna áðan.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm. að full ástæða er til að hafa efasemdir um hvort líklegt sé að það náist að fjármagna þetta fyrirtæki. Verða íslensku lífeyrissjóðirnir tilbúnir að gera það? Ég hef ekki séð það á blaði hversu mikið fé gæti komið frá þeim ef þeir færu að þeim reglum sem hv. þm. var að lýsa hér áðan. Ég stórefa að það fé nægi til að fjármagna það sem þarf.