Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:09:12 (4760)

2002-02-14 20:09:12# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., SI
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:09]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal ásamt stækkun Kröfluvirkjunar. Ég fagna þessu frv. og tel að hér sé um mikilvægt þjóðhagslegt hagsmunamál að ræða. Hér er lagður grunnur að því að Landsvirkjun geti áfram unnið að nauðsynlegum undirbúningi vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda og í framhaldi af því geti risið hið margumrædda álver við Reyðarfjörð. Hér er um að ræða það mikla framkvæmd að hún skiptir þjóðarbúið í heild og afkomu þess afar miklu máli.

Við sem þetta land byggjum búum við lífskjör sem eru með þeim bestu sem þekkjast í heiminum. Viðfangsefnið nú er að reyna að halda þeim kjörum. Markmiðið er að allir Íslendingar fái skerf af þessum góðu lífskjörum. Það er staðreynd að ef við ætlum að viðhalda þessari góðu stöðu okkar verðum við að hafa öflug og sterk fyrirtæki. Því er afar mikilvægt að skapa fyrirtækjum örugg og góð starfsskilyrði. Við þurfum að búa þeim umhverfi sem er fyllilega samkeppnishæft við það sem best gerist annars staðar.

Verkefni á borð við byggingu og rekstur álvers í Reyðarfirði hefur víðtæk áhrif, jafnt á Austurlandi sem og annars staðar á landinu. Í umhverfismati vegna álversins var reynt að meta samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif þess, annars vegar á byggingartímanum og hins vegar á rekstrartíma. Enn fremur var fjallað um samfélagsleg áhrif þess ef ekki verður af byggingu álversins.

Talið er að í lok framkvæmdatímans muni um tíu þúsund manns búa á Miðausturlandi verði af byggingu álvers en um sjö þúsund manns verði ekki af framkvæmdunum. Tíu þúsund manna byggð krefst þjónustu og uppbyggingar á ýmsum sviðum. Mönnum reiknast til að álverksmiðjan muni skapa um þúsund ný störf á svæðinu, þ.e. um 600 bein störf við álverið og um 400 afleidd störf. Auk þess telja menn að hin ýmsu þjónustufyrirtæki sem fyrir eru á svæðinu muni styrkjast, eflast og nýtast mun betur. Þá er sama hvort talað er um verslanir, skóla, banka, sjúkrastofnanir, iðnfyrirtæki eða annað. Þá mun álver hafa í för með sér fækkun láglaunastarfa og bæta rekstrarafkomu sveitarfélaga fyrir austan.

Sé litið á samfélagslegu þættina þá er ljóst að mjög vel hefur verið staðið að málum vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda og stóriðju fyrir austan. Væntanleg samfélagsáhrif hafa og verið ítarlega könnuð. Skipulagsvinna ýmiss konar er þegar í gangi, t.d. vegna viðbótaríbúðarhúsnæðis, aukinna menntunarmöguleika og samgönguþátta, svo sem að vegabótum og hafnargerð.

Helstu veikleikar Austurlands, líkt og annarra landsbyggðarsvæða, er hátt hlutafall láglaunastarfa og einhæfni í atvinnulífinu. Einmitt þessa ástæðu, einhæfni í atvinnulífinu, nefna flestir sem aðalástæðu fyrir því að þeir flytji úr hinum dreifðu byggðum landsins og á höfuðborgarsvæðið.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun fækkaði störfum í grunnatvinnuvegunum verulega á Austurlandi á árabilinu 1986--1996, þ.e. um 40% í landbúnaði og 25% í sjávarútvegi. Þetta er því miður sorgleg staðreynd sem á reyndar víðar við. Við hljótum að fagna því þegar svo öflug atvinnustarfsemi er í augsýn sem kemur Austfirðingum og landsmönnum öllum til góða.

Ánægjulegt var að sjá niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar Háskólans þar sem fram kom að ungt fólk á Austurlandi er afar jákvætt gagnvart álveri og þeim atvinnumöguleikum sem því fylgja. Einnig kom fram að fjöldi brottfluttra Austfirðinga vill gjarnan flytja til baka skapist þar störf við þeirra hæfi. Ég skil ekki andstöðu sumra þingmanna við þetta mál. Ég skil t.d. ekki hvernig þingmenn Vinstri grænna geta kinnroðalaust horft framan í Austfirðinga, talað gegn hagsmunum þeirra og bent á atvinnumöguleika á við hundasúru- og fjallagrasatínslu og þjóðgarðsgæslu, líkt og það geti komið í stað þeirra möguleika sem virkjun og álver skapa.

Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, orðaði það vel er hann sagði að fólki fyrir austan gremdist, t.d. þegar pólitíkusar hefðu meiri áhyggjur af gæsum, gróðri og grjóti en af fólkinu sem þar býr. Við vitum svo sem vel hvaða pólitíkusa hann átti þar við.

Mikið hefur verið fjallað um þann ósnortna náttúruauð sem við eigum á Austurlandi og er það vel. En hvað um mannuauðinn? Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að ekki sé hægt að njóta þeirrar fallegu náttúru sem fyrir austan er þó að virkjun og álver rísi þar.

[20:15]

Í austfirska tímaritinu Glettingi sem kom út í lok síðasta árs er m.a. grein sem Ragnheiður Ólafsdóttir, jarðverkfræðingur og umhverfisstjóri Landsvirkjunar, og Halldóra Hreggviðsdóttir, jarðverkfræðingur og hagverkfræðingur, skrifuðu um verndarsvæði og virkjunarlón. Er markmið greinarinnar að kynna hugmynd Ragnheiðar um hvernig hægt sé að tengja verndarsvæði og virkjunarlón líkt og Bretar, Bandaríkjamenn og Svíar hafa gert. En í þessari grein segir m.a., með leyfi forseta:

,,Möguleikar eru á því að nýta áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar til að byggja fræðslusetur, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og aðra þjónustu þeim tengda. Landnotkun á svæðinu sem fellur innan verndarflokks 2 yrði þá háð strangari skilyrðum samkvæmt nánari ákvörðunum þar um. Á þennan hátt væri hægt að sameina þjóðgarð og virkjun. Það skal tekið fram að þetta er eingöngu sett fram sem dæmi um mögulega tilhögun á þjóðgarðssvæðinu.``

Herra forseti. Ég læt mér annt um umhverfismál og er mikill náttúruunnandi en ég skil ekki þann málflutning að ekki sé áfram hægt að njóta fagurrar náttúru fyrir austan og gera út á öfluga ferðaþjónustu þó að virkjun og álver rísi á svæðinu. Þvert á móti ættu þessar greinar að geta stutt hvor aðra. Hægt er að taka dæmi úr Mývatnssveitinni þar sem Kröfluvirkjun og kísilgúrverksmiðjan eru staðsettar. Þangað koma árlega um 100 þús. ferðamenn og hvorki hafa verksmiðja né virkjun fælt þá frá nema síður sé. Ég veit ekki betur en Laxárvirkjun og fleiri virkjanir séu hreint og beint aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Varðandi Kröflusvæðið er ljóst að um mikið ónýtt afl er þar að ræða og það sama má raunar segja um Þeistareykjasvæðið. Nú er unnið að stækkun Kröfluvirkjunar um 40 megavött en talið er að á Kröflusvæðinu sé hægt að virkja um 370 megavött fyrir utan Bjarnarflag. Lög sem sett voru á Alþingi árið 1974 um verndun á vatnasvæði Mývatns hafa gert mönnum þar nyrðra talsvert erfitt fyrir en vegna þess að Kröflusvæðið tilheyrir Skútustaðahreppi ná þessi verndunarlög einnig til Kröflu. Því má ekki einu sinni bora tilraunaborholur á svæðinu án þess að farið sé í umhverfismat. En sem betur fer eru lögin um verndun á vatnasvæði Mývatns nú í endurskoðun og vonandi er að við þá endurskoðun falli Kröflusvæðið sem er skilgreint virkjunarsvæði undan verndarlögunum.

Herra forseti. Ég er hlynnt því að virkja skynsamlega og að vel athuguðu máli. Því er ég hlynnt Kárahnjúkavirkjun og fyrirhuguðu álveri í Reyðarfirði sem og stækkun Kröfluvirkjunar. Virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka eru fyrirhugaðar 2002--2006, ráðgert er að framkvæmd við fyrri áfanga álversins hefjist árið 2003 og taki þrjú ár. Stefnt er að því að rekstur hefjist árið 2006 og síðari áfangi álversins geti svo hugsanlega verið tekinn í notkun árið 2012. Áætlað er að fyrri áfangi álversins að meðtalinni rafskautaverksmiðju kosti um 80 milljarða kr. en að síðari áfanginn muni kosta um 35 milljarða kr., samtals um 115 milljarða íslenskra kr.

Næg eftirspurn er eftir áli á heimsmarkaði og ekkert er í spilunum sem bendir til að hún muni fara minnkandi. Þvert á móti hefur notkun áls aukist á undanförnum árum og áratugum vegna hinna fjölbreyttu eiginleika sem álið býr yfir. Markaðir fyrir framleiðslu álversins verða fyrst og fremst í Evrópu og Bandaríkjunum. Álverð hefur verið rokkandi en gert er ráð fyrir því að verðsveiflur fari minnkandi þegar til lengri tíma er litið.

Andstæðingar álvers tala um mengun og láta á stundum sem verið sé að gera Ísland að einhvers konar þriðja heims landi í Evrópu. Slíkur málflutningur er af og frá. Ýtrustu kröfur verða gerðar um mengunarvarnir í Reyðaráli. Ástæða þess að álver eru ekki reist annars staðar í Evrópu er einfaldlega sú að þar er ekki lengur til sú náttúruvæna orka sem til þarf. Í Bandaríkjunum rísa nú hins vegar álver, og þá oft mjög nálægt íbúabyggð sem þykir ekki tiltökumál.

Á kynningarfundi Hollustunefndar og Fjarðabyggðar sem haldinn var á Reyðarfirði þann 5. feb. sl. þar sem kynnt var tillaga að starfsleyfi fyrir Reyðarál kom m.a. fram að strangari kröfur væru í mörgum tilfellum gerðar í tillögu að starfsleyfi fyrir álver Reyðaráls en nú gilda fyrir álverin í Straumsvík og á Grundartanga. Þar munar mest um sérákvæði vegna rafskautaverksmiðju en hjá Ísal og Norðuráli er þess háttar starfsemi ekki til staðar. Stefnt er að byggingu rafskautaverksmiðju til að framleiða rafskaut fyrir álverið samhliða fyrri áfanga álversins. Einnig eru gerðar strangari kröfur til Reyðaráls vegna útblásturs á flúor og brennisteinsefnum auk þess sem vothreinsibúnaðar er krafist við álver Reyðaráls. Fulltrúar Hollustuverndar hafa fullyrt að með ákvæðum tillögunnar væri verið að uppfylla mjög strangar kröfur um losun brennisteins í sjó og að dreifingarspá brennisteins á þynningarsvæði álversins verði langt innan þeirra marka sem ýtrustu kröfur gera ráð fyrir.

Starfsleyfið á að gilda fyrir allt að 420 þús. tonna álframleiðslu á ári, 233 þús. tonna ársframleiðslu af forbökuðum rafskautum og til reksturs urðunarstaðar með allt að 200 þús. m3 heildarrúmmáli. Hollustuvernd leggur til að gildistími starfsleyfisins fyrir álver Reyðaráls verði til ársins 2020 sem er talsvert lengri tími en almennt tíðkast en það auðveldar framkvæmdaraðilum áætlanagerð og gerir langtímamarkmið varðandi fjármögnun og aðra uppbyggingu verksmiðjunnar öruggari.

Herra forseti. Það er kominn tími til að landsbyggðin fái að njóta jákvæðra áhrifa af stóriðju, að verulegum fjármunum verði varið í stórfyrirtæki á landsbyggðinni og þannig horft til jákvæðrar uppbyggingar til lengri tíma, einnig á svæðum utan suðvesturhornsins.