Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:49:37 (4769)

2002-02-14 20:49:37# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:49]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að við virkjum aldrei allt það sem hægt er að virkja á Íslandi. Það yrði ófögur sjón. Hins vegar gleðst ég yfir því, herra forseti, að rammaáætlunin sé á leiðinni og auðvitað er það rétt hjá hæstv. iðnrh. að það verður að skoða alla kosti. Þess vegna er verið að setja saman þessa rammaáætlun þannig að hægt sé að skoða kostina, vega þá og meta. Það kemur auðvitað í ljós að sumir eru mun hagkvæmari en aðrir, sumir eru miklu stærri en aðrir og aðrir minni. Það er kannski ekki aðalatriðið heldur það að við, stjórnvöld, löggjafarsamkoman, séum búin að fara yfir málið í heild sinni, að hér sé komin einhver niðurstaða í það með hvaða hætti eigi að nýta þær miklu auðlindir sem við eigum. Það er líka, herra forseti, mikil ábyrgð að búa yfir svona miklum auðlindum. Það er ekki bara ábyrgð gagnvart þeim sem búa á Íslandi í dag, það er ábyrgð gagnvart börnunum okkar, gagnvart framtíðinni og það er líka ákveðin ábyrgð gagnvart heimsbyggðinni. Það skiptir máli, ekki bara fyrir okkur, hvernig við nýtum þessar miklu og góðu auðlindir, og í hvað. Þess vegna bíð ég spennt, herra forseti, eftir rammaáætluninni og segi enn og aftur að hún hefði betur verið tilbúin áður en ríkisstjórnin lagði upp í þessa vegferð.