Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:52:34 (4771)

2002-02-14 20:52:34# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:52]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er verst ef hv. þm. verður fyrir vonbrigðun með ræðuna mína eftir það sem hún er búin að leggja á sig. En svona heilt yfir þakka ég fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún hafa verið sérstaklega góð og jákvæðari en ég kannski þorði að gera mér vonir um áður en hún hófst og endurtek það sem ég sagði einhvern tíma í andsvari áðan að það eru fleiri og fleiri að hoppa upp í lestina (Gripið fram í: Áttu við Þórunni?) sem Framsfl. drífur áfram, (Gripið fram í: Framsóknarlestina.) framsóknarlestina.

Ég ætla að koma inn á nokkur atriði í lokin. Ég hef svarað ýmsu í andsvörum og ætla að reyna að hafa þetta stutt af því að það er orðið nokkuð áliðið kvölds.

Fyrst er það það sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Er efnahagsleg staða þannig að við þurfum að fara út í þessar framkvæmdir? Þetta er dálítið mikil grundvallarspurning því að við erum ekki að fara út í þessar framkvæmdir að gamni okkar. Það er vegna þess að við sem eigum aðild að þessari ríkisstjórn teljum að það sé einmitt mikilvægt vegna samdráttar í hagkerfinu, vegna þess að við þurfum að stækka kökuna og vegna þess að við höfum kosti hvað varðar fjárfesta í sambandi við áliðnaðinn sem við höfum ekki í öðrum greinum. Þess vegna kemur þetta tækifæri upp í hendurnar á okkur, má kannski segja, og okkur finnst sjálfsagt að nýta það vegna þess að það er stefna stjórnvalda að nýta auðlindirnar. Þetta er endurnýjanleg orka og það er mikilvægt þegar við horfum á umheiminn að ál sé framleitt á Íslandi miðað við að það væri framleitt úr orku sem ætti upptök sín í kolum eða gasi. Það munar miklu fyrir umheiminn.

Þá er það næsta spurning: Eru þetta ekki allt of dýr störf sem þarna verða til og er þetta ekki óhagkvæm leið til að afla starfa? Þá kem ég að því sem ég nefndi áðan. Í þessu tilfelli höfum við fjárfesta sem eru tilbúnir til að fjárfesta í þessum atvinnutækifærum og það er í sjálfu sér stóra málið. Ríkissjóður ætlar ekki að leggja þarna fram fjármagn. Það gerir hann ekki. Þetta eru fjárfestar annars vegar og hins vegar er þetta orkufyrirtækið Landsvirkjun sem fer í virkjunarframkvæmdir vegna þess að þeir hafa reiknað það út að það sé arðbært að virkja við Kárahnjúka og selja orkuna til fyrirtækisins Reyðaráls sem ætlar að byggja álver við Reyðarfjörð.

Er þetta byggðaaðgerð eða er þetta ekki byggðaaðgerð? Það vill svo vel til að þetta er fyrst og fremst þjóðhagslega hagkvæm aðgerð og í öðru lagi byggðaaðgerð, og hvort tveggja skiptir miklu máli. En ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi aðgerð bjargar ekki allri landsbyggðinni. Hún er mjög mikilvæg fyrir Austurland og það mun alveg teygja sig til Norðurlands og það skiptir verulega miklu máli. Það skiptir mig mjög miklu máli hvort 7.000 manns búa á Mið-Austurlandi eða 10.000. Ég segi það beint út og ég trúi ekki öðru en að allir hér séu sammála mér um það hvort sem þeir telja að þetta sé rétta leiðin eða ekki.

Ef af þessu verður er rétt að stór hluti af raforkuframleiðslu okkar fer í að framleiða ál sem fer til stóriðju. Það getur verið ástæða til að gagnrýna að þetta sé of stór hluti en mér finnst að menn verði þá að rökstyðja hvers vegna þeir eru á móti því ef þetta skapar þjóðartekjur, útflutningstekjur og störf. Allir gera sér grein fyrir því að þetta skaðar náttúruna. Það verður ekki hjá því komist og það hefur verið svo allan þann tíma, alla þessa síðustu áratugi, þegar við höfum verið að virkja til almenningsnotkunar og til stóriðju. Við höfum alltaf gert okkur grein fyrir því að það skaðar náttúruna að virkja vatnsföllin. En við höfum samt gert það og ég veit ekki hvar við stæðum í dag ef við hefðum ekki tekið þær ákvarðanir. Reyndar hafa allir stjórnmálaflokkar á Íslandi, sem hafa verið til í einhvern tíma, staðið að því að virkja vatnsföllin.

Sumir segja að miklu betra sé að hætta við þetta og einbeita sér að ferðamennskunni af því að hún sé arðbær, skapi mörg störf og þar fram eftir götunum. Mér finnst við ekki geta horft fram hjá því að það hefur farið býsna vel saman hjá okkur Íslendingum að stunda ferðamennsku og að reka stóriðju og virkja vatnsföllin. Besta dæmið kom fram í ræðu nýlega, Bláa lónið. Svo vel vill til að það er náttúrlega vegna virkjunarframkvæmda sem við eigum þar ferðamannastað og hvað er hægt annað en segja allt gott um að í tengslum við þá virkjun myndast þarna þessi stórkostlegi ferðamannastaður? Fullyrðingin um að ferðamenn kæmu bókstaflega ekki hingað til að horfa á þessi mannvirki er því fallin um sjálfa sig.

Sama mátti segja um Kröflusvæðið og sama má segja um allt hálendið. Hvaða aðgang hefðum við og ferðamenn að hálendinu ef Landsvirkjun hefði ekki lagt þar vegi? Varla hefði nokkur maður komið þar. (Gripið fram í.) Nei. Og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sem situr hér og hlær --- það vildi svo einkennilega til að þegar hún byrjaði baráttu sína gegn uppistöðulóni á Eyjabökkum og Fljótsdalsvirkjun hafði hún aldrei komið þangað. Svona er þetta.

En ég vil halda einu til haga. Hér var talað um að þjóðgarður mundi gefa 40--50 millj. meira án virkjunar en með virkjun og það er rétt en aðalatriðið er að álverið gefur eina 10 milljarða á ári þannig að þar er ansi mikill munur á.

[21:00]

Vitnað var til skýrslu iðnrh. frá 1997--1998 sem er náttúrlega orðin nokkuð gömul skýrsla. Það sem þar kemur fram, og það var rétt eftir haft, eru hugmyndir þess tíma og hlutirnir hafa breyst síðan. Þá var reiknað með þessu raforkufyrirtæki með því formi sem þar kemur fram og ekkert um það að segja. Nú horfir þetta öðruvísi við. Nú er það Landsvirkjun í því rekstrarformi sem hún er í dag sem verður framkvæmdaraðili verksins.

Að kryfja efnahagsleg rök til mergjar er náttúrlega það sem allir munu gera sem að þessu verkefni koma. En eins og margsinnis hefur komið fram er ekki hægt að ... Hæstv. forseti. Mér finnst óþarflega mikill hávaði í hliðarsal.

(Forseti (GuðjG): Forseti hefur gert ráðstafanir til að láta loka þessum dyrum og einangra þennan hávaða.)

Eðli máls samkvæmt er ekki hægt að fjalla um öll mál í smáatriðum á þessu stigi málsins. Ekki hefur verið samið endanlega um orkuverð og annað slíkt og hv. þm. verða að virða það. Þeir hljóta að skilja það og ég veit að þeir gera það en þetta er kannski meira svona sem stríðni að þetta er endurtekið aftur og aftur.

Landsvirkjun tekur á sig þann kostnað sem verður til vegna þeirra skilyrða sem hæstv. umhvrh. setti í úrskurði sínum, það er enginn vafi á því.

Það kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að hann taldi eiginlega ekki vogandi fyrir lífeyrissjóðina að fjárfesta í þessu nema erlendir aðilar yrðu kjölfestufjárfestar. Við höfum einmitt fyrirtækið Norsk Hydro sem yrði þessi kjölfestufjárfestir og engin breyting er þar á. En ég tel mjög mikilvægt að Íslendingar taki þátt í þessu verkefni, mér fyndist mjög miður ef þeir gerðu það ekki og trúi ekki öðru en að það verði.

Hann talaði um Landsvirkjun sem nokkurs konar forngrip og að ástæða væri til að koma á öðru eignarformi. Það er alveg hugsanlegt. Það hefur verið skoðað, og líka má velta fyrir sér hvort í sjálfu sér sé æskilegt í nýju raforkulagaumhverfi að Reykjavíkurborg eigi nánast helminginn í Landsvirkjun og svo eigi borgin Orkuveituna sem eru þá kannski komin í samkeppni þegar þetta opnast meira. Ég held að mál gætu alveg þróast þannig að þarna yrði breyting á þó að það sé ekki á döfinni einmitt núna.

Ég held að ég sé komin nokkurn veginn með það sem ég ætlaði að segja núna. Ég var að vonast til þess að ég hefði ekki vakið upp neinar sérstakar áherslur eða spurningar þannig að við gætum farið að segja þetta gott. En eitthvað hefur verið bankað nú þegar þannig að ég held að ég ljúki hér máli mínu, hæstv. forseti.