Verndun hafs og stranda

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:47:25 (4781)

2002-02-14 21:47:25# 127. lþ. 78.2 fundur 492. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:47]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að frv. heitir frv. til laga um verndun hafs og stranda. Þar verið að vísa til þess að vernda eigi strendurnar. Þó að, eins og hæstv. ráðherra sagði, bannað sé að kasta rusli í sjóinn er þetta engu að síður mikið vandamál víða og einkum meðfram norðurströndinni en einnig norðvesturströndinni.

Ég tel að undir þessari nafngift sem þetta frv. til laga hefur, um verndun hafs og stranda, ætti að taka á því hvernig vernda eigi og hreinsa strendurnar þeim sorpófögnuði sem þar kemur upp. Af slíku sorpi er gríðarlega mikil vinna að hreinsa upp og þrífa. Það gagnar ekkert að bannað sé að henda þessu í sjóinn ef þetta rekur hvort sem er. Mér finnst að það eigi, virðulegi forseti, undir þessu heiti, í frv. til laga um verndun hafs og stranda, að kveða á um hvernig við getum verndað, þrifið, hreinsað og vaktað strendur okkar og höf eins og markmið laganna gerir ráð fyrir.