Verndun hafs og stranda

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:58:42 (4786)

2002-02-14 21:58:42# 127. lþ. 78.2 fundur 492. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:58]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rétt er að það er um að gera að hafa hlutina sem einfaldasta. Hins vegar er ljóst, varðandi þetta lagafrv., að þrátt fyrir 1. gr., sem hv. þm. Jóhann Ársælsson telur að hægt væri að túlka á tvo vegu, er það þannig að sérlög ganga lengra en þetta lagafrv. Segja má að þetta séu heildarlög.

Það kemur fram í 2. gr. að lögin taki til hvers konar starfsemi sem tengist framkvæmdum, skipum og loftförum hér á landi í lofthelgi og í íslenskri mengunarlögsögu sem hefur eða getur haft áhrif á þá þætti sem tilgreindir eru í 1. gr. að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um. Lögin um fiskveiðistjórnun og þau lög sem lúta að veiðarfærum tengjast því ekki þessu frv. hér.

En vegna umræðunnar um áhrif togveiða, um að þetta skarist og heyri undir nokkra aðila og einnig laxeldið eins og hér var komið inn á, vil ég benda á að fram hefur komið að sumir telji að t.d. Hafrannsóknastofnun eigi að falla undir umhvrn. Hún er núna undir sjútvrn. og ég tel að starfsemin sé í ágætishöndum í því ráðuneyti. Ég er ekki að boða að neinar breytingar verði þar á en það hefur verið viðhorf margra í umræðunni að sú stofnun ætti að heyra undir umhvrn. Við getum bent á að Náttúrufræðistofnun er sú stofnun sem fylgist með náttúrunni á landi en síðan er önnur stofnun sem tekur við þegar kemur að hafinu.