Umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:10:09 (4793)

2002-02-18 15:10:09# 127. lþ. 79.91 fundur 339#B umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. veldur mér vonbrigðum. Samfylkingin kemur hingað og óskar eftir að fá að ræða meint mistök sem hafa orðið við sölu Símans. Það er ekki mál sem á að ræða við hæstv. samgrh. Samgrh. ber ekki ábyrgð á því ef mönnum voru mislagðar hendur við verðlagningu, tímasetningu og ýmislegt annað. Á því ber einkavæðingarnefnd ábyrgðina og í umboði hvers starfar einkavæðingarnefnd? Það er hæstv. forsrh. sem auðvitað ber ábyrgðina á því en ekki hæstv. samgrh. og hefur hann þó nógu marga krossa að bera á sínum öxlum þessa dagana.

Herra forseti. Ég ítreka þá ósk mína að hæstv. forsrh. skjóti sér ekki undan ábyrgð í þessu máli og ræði málefni Landssímans, málefni einkavæðingarnefndar og sölu Símans við okkur í þessum sölum. Við eigum heimtingu á því, herra forseti. Ef Sjálfstfl. ætlar að gera blóraböggul úr hæstv. samgrh. þá er það auðvitað hans mál. En ég vil ekki taka þátt í því. Mér finnst það ekki drengilegt.