Umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:19:49 (4798)

2002-02-18 15:19:49# 127. lþ. 79.91 fundur 339#B umræða um einkavæðingarnefnd og sölu Landssímans# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefði verið æskilegt að fá viðbrögð hér hjá hæstv. forsrh. og forseta þingsins bæði við óskum mínum um að þessir aðilar tjáðu sig um stöðu málsins ... (Forseti hringir.) Ég get lokið máli mínu ...

(Forseti (HBl): Ég vil gera smáathugasemd. Hv. þm. hafði beðið um orðið og af þeim sökum gaf ég hv. þm. orðið áður en hæstv. forsrh. hafði tekið til máls. En það er mér að meinalausu þó að hv. þm. bíði með ræðu sína um hríð.)

Það er mér alveg að meinalausu að ljúka ræðu minni, virðulegur forseti, og hlýða þá á svör hæstv. forsrh. á eftir þó að hin röðin hefði kannski verið heppilegri úr því að forsrh. var búinn að biðja um orðið, þ.e. að hann hefði brugðist við og svarað. Ég held að það hefði nú verið venjulegri fundarstjórn. En við erum ýmsu vön þessa dagana og ég kippi mér ekki upp við það.

Ég vil leggja á það áherslu hér, herra forseti, í þessu máli að réttur alþingismanna til að krefja upplýsinga er sterkur. Hann er sjálfstæður og hann takmarkast ekki af upplýsingalögum. Það er algjörlega augljóst mál að ef eitthvað er þá er hann ríkari.

Þess vegna er það alveg ótrúleg uppákoma sem hér er orðin, að forsrn. með stuðningi forseta Alþingis hefur neitað þingmönnum um upplýsingar um fjárhagsleg málefni í tengslum við afgreiðslu fjáraukalagafrv., en síðar eru sömu aðilar reknir til þess að veita þær upplýsingar á grundvelli úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í 54. gr. stjórnarskrárinnar og í 46.--50. gr. þingskapalaga er fjallað um þennan rétt Alþingis og alþingismanna til upplýsinga.

Herra forseti. Hörmulegt er til þess að vita að við höfum á allra síðustu mánuðum sætt ítrekuðum tilraunum af hálfu framkvæmdarvaldsins til þess að hafa þennan rétt þingmanna að engu. Forsrn., landbrn., iðn.- og viðskrn. og sjálfsagt fleiri ráðuneyti eru sek um sambærilega hluti.

Ég fer fram á að forsn. Alþingis og forsrn. og ráðuneytin fari nú yfir þennan úrskurð og setji sér vinnureglur í þessum efnum til þess að koma í veg fyrir jafnneyðarlega uppákomu og þá sem hér er orðin, að þingmenn sitji eins og illa gerðir hlutir, fáandi ekki upplýsingar um fjárhagsleg málefni sem öllum almenningi ber síðan á grundvelli upplýsingalaga samanber þá niðurstöðu sem hér er orðin.