Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:40:30 (4805)

2002-02-18 15:40:30# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mér finnst sennilega alvarlegast við þessa umræðu að eftir að þær upplýsingar spurðust út sem þjóðin hefur orðið vitni að á undanförnum dögum og klukkutímum kemur hæstv. forsrh. fram og segir allt í lukkunnar velstandi. Það er ljóst að fram er komin ný stétt útgerðarmanna á Íslandi. Þessi stétt gerir út á ríkissjóð í tengslum við hlutafélagavæðingu opinberrar starfsemi og sölu almannaeigna. Hér er um að ræða einstaklinga og fyrirtæki sem hafa talið kaupendum þjónustu sinnar trú um að þeir búi yfir verðmætri þekkingu og þeir öðrum fremur kunni skil á faglegum vinnubrögðum. Við heyrðum á hæstv. forsrh. að hann hefur keypt þennan boðskap.

Við höfum að undanförnu verið að kynnast þessum faglegu vinnubrögðum og hvernig þessir aðilar standa að verki og við höfum fengið nokkra innsýn í starfsskilyrði einkavæðingarnefndar og sérfræðinga hennar. Tímakaupið er 5.500 kr. og síðan hafa þeir keypt þjónustu af sérfræðingum og ráðgjöfum í einkageiranum til að annast eins mikinn hluta vinnunnar og kostur er svo að ég vísi í svar hæstv. forsrh. um starfsemi einkavæðingarnefndar.

Í svarinu kemur einnig fram að iðulega eru sérfræðingarnir sjálfir einkavæðingarnefndarmenn ríkisstjórnarinnar og hefur formaður nefndarinnar til skamms tíma fengið í vasa sinn tæpar 17 millj. kr. frá 1996, þar af tæpar 5 millj. í fyrra. Annar nefndarmaður hefur fengið tæpar 7 millj. en báðir þessir aðilar hafa gegnt lykilstörfum í stórfyrirtækjum á Íslandi.

Annars þarf engum að koma þetta á óvart. Upp er runninn sá tími að okkur ber að virkja ágirnd og græðgi, sagði Margrét Thatcher, íhaldskonan breska fyrir tveimur áratugum, og svipaða hugsun hefur hæstv. forsrh. Íslands, Davíð Oddsson, einnig orðað. Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar hafa tekið hæstv. forsrh. á orðinu og nú er uppskeran að koma í ljós því að það eru gömul sannindi og ný að menn uppskera eins og til er sáð. En ekki get ég óskað Sjálfstfl. og Framsfl. til hamingju með uppskerutímann.

(Forseti (HBl): Ég vil áminna hv. þm. um að gæta hófs í orðum.) (Gripið fram í: Á að víta aftur?) (Gripið fram í: Hvað sagðirðu?)