Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:42:57 (4806)

2002-02-18 15:42:57# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er auðvitað með öllu þýðingarlaust að ræða svo víðfeðmt og alvarlegt mál eins og þetta á þessum hlaupum sem hér er gert ráð fyrir. Ég er svo gamall sem á grönum má sjá en ég þykist aldrei hafa staðið frammi fyrir öðru eins og því sem við nú sjáum frá degi til dags um það sem menn hafa handa á milli í umboði hæstv. ríkisstjórnar.

Hæstv. forsrh. fór um það nokkrum orðum að þetta væri allt saman með eðlilegum hætti þegar menn eru að versla við sjálfa sig. Það er kannski líka eðlilegt að þeir sem taka að sér slík tugmilljarða stórverkefni stofni fyrirtæki með eiginkonunni sinni og versli við það til að sinna aukaverkefnum fyrir þessa miklu starfsemi. Frammi fyrir þessu stöndum við.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta en Alþingi hlýtur að taka miklu fastar á því en á þessum hlaupum. Spurningin sem ég varpa fram er þessi: Er ekki mál til komið að Alþingi kjósi rannsóknarnefnd sem geri ítarlega úttekt á þessum tveimur fyrirbrigðum sem eru einkavæðingarnefnd og Landssíminn? Því þetta verður ekki aðskilið í þeim heilaga hafragraut sem þar sýður.