Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:44:41 (4807)

2002-02-18 15:44:41# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. reyndi í svari sínu að skýra hið tvöfalda kerfi þóknana til fulltrúa í einkavæðingarnefnd. Ég er ekki sammála honum. En ég vil að gefnu tilefni spyrja hvort hann telji eðlilegt að þetta sama tvöfalda kerfi virki til að mynda hjá stjórnarformanni Símans eins og upplýst var um í morgun. Annars vegar taki hann laun sem slíkur og hins vegar telji hann út tíma til þessa sama fyrirtækis.

Ég tók eftir því í blöðum að þegar fráfarandi formaður einkavæðingarnefndarinnar, Hreinn Loftsson, lét af störfum þakkaði hæstv. forsrh. honum framúrskarandi störf. Því vil ég í annan stað inna hæstv. forsrh. eftir því hvort hann sé jafnánægður með hann eftir að hann lauk störfum og sendi frá sér yfirlýsingar um það fyrirtæki sem hann, að sögn, var að reyna að selja mánuðum, missirum og árum saman. Í ljós hefur komið að umfjöllun hans og einkunnagjöf hefur verðfellt fyrirtækið svo milljörðum skiptir. Er hæstv. forsrh. enn jafnánægður með störf hans?

Herra forseti. Í þessu sambandi vil ég minna á að Síminn býr yfir mikilli þekkingu, og 1.100 starfsmenn vinna þar. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort hann sé ekki sammála mér um að það ágæta fólk eigi ekki að þurfa að sitja undir þeim ósköpum sem á dagana hafa drifið á síðustu og verstu tímum þegar örfáum toppum þessa fyrirtækis hefur tekist að draga það niður í það svað sem það óneitanlega er komið í nú um stundir.

Herra forseti. Hefur hæstv. forsrh. ekki áhyggjur af þessari stöðu mála? Deilir hann ekki þeim skoðunum með mér?