Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:59:04 (4814)

2002-02-18 15:59:04# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Frumvarp þetta er flutt í tengslum við gerð kjarasamnings fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna sem undirritaður var á síðasta sumri. Í tengslum við þann kjarasamning gáfu fjmrh. og dómsmrh. út yfirlýsingu þar sem vikið er að nokkrum atriðum sem ætlunin er að lögfesta á hinu háa Alþingi reynist fyrir því meiri hluti. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar á lögunum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem ég mæli fyrir með þessu frv., og hins vegar breytingar á lögreglulögum sem er að finna í frv. hæstv. dómsmrh. sem einnig er á dagskrá þessa fundar.

[16:00]

Í yfirlýsingu okkar dómsmrh. frá því 13. júlí 2001 kemur fram að ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir því að ákvæðum lögreglulaga verði breytt þannig að lögreglumenn verði leystir frá embætti sínu þegar þeir eru orðnir fullra 65 ára eða fyrr, eftir því sem dómsmrh. ákveður með reglugerð. Jafnframt kemur fram í umræddri yfirlýsingu að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á ákvæðum laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þannig að lífeyrir verði reiknaður eins og viðkomandi hefði starfað til 70 ára aldurs. Í samræmi við þetta er í þessu frv. lagt til að tekin verði upp sérákvæði í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um útreikning á lífeyri lögregumanna sem láta af embætti við 65 ára aldur.

Eins og ég gat um flytur dómsmrh. frv. samhliða þessu sem lýtur að styttingu á starfsaldri lögreglumanna.

Frv. það sem hér um ræðir mun óhjákvæmilega hafa í för með sér nokkurn kostnað fyrir ríkissjóð. Ekki er þó gert ráð fyrir að þær viðbótarskuldbindingar sem stofnað er til vegna styttingar á starfsaldri lögreglumanna hafi áhrif á núverandi skuldbindingar ríkissjóðs við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eins og nánar kemur fram í skýringu við b-lið 1. gr. frv. Á móti þeim kostnaði, sem ætla má að frv. fylgi, kemur að breytingin mun hafa jákvæð áhrif á störf lögreglumanna, á skipulagningu starfa þeirra og þannig stuðla að hagræðingu hjá lögregluembættunum í landinu.

Eins og fram kemur í nefndri yfirlýsingu dómsmrh. og fjmrh. er gert ráð fyrir að dómsmrh. verði gert mögulegt að breyta starfslokaaldri lögreglumanna með reglugerð. Eðli málsins samkvæmt verður slíkt ekki gert nema að höfðu samráði við fjmrh. og undangengnu mati á áhrifum slíkra breytinga, eigi þær jafnframt að hafa áhrif á lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og ríkisfjármálin að öðru leyti.

Í a-lið 1. gr. frv., sem gerir ráð fyrir nýrri 39. gr. í lögunum, felst ákveðin sérregla að því er varðar útreikning á lífeyri lögreglumanna sem veitt er lausn frá embætti við 65 ára aldur. Við það tímamark verður hverjum og einum lögreglumanni reiknaður viðbótarlífeyrir eins og hann hafi starfað til 70 ára aldurs. Gert er ráð fyrir því að reglan taki einnig til makalífeyris. Hafi sjóðfélaga þannig verið reiknaður viðbótarlífeyrir við útreikning samkvæmt greininni fær maki hans aukin réttindi í samræmi við það ef til greiðslu makalífeyris kemur. Á hinn bóginn ...

(Forseti (GuðjG): Það er of mikill kliður í salnum og hliðarsölum. )

Á hinn bóginn hefur reglan ekki áhrif á greiðslu barna- og örorkulífeyris. Þá eiga ákvæði um rétt vaktavinnufólks til viðbótarlífeyris ekki við þegar reiknaður er viðbótarréttur samkvæmt ákvæðinu.

Í b-lið 1. gr. frv. er gert ráð fyrir nýrri 40. gr. í lögunum. Þar er lýst samskiptum ríkissjóðs og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna þessara mála. Í grundvallaratriðum felast þau í því að í hvert sinn sem lögreglumanni er úrskurðaður viðbótarlífeyrir greiðir ríkissjóður heildargreiðslu til sjóðsins vegna viðbótarréttinda hans. Útreikningurinn tekur mið af þeim tryggingafræðilegu forsendum sem notaðar eru hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ekki er gert ráð fyrir að viðbótarskuldbindingar sem myndast vegna lögreglumanna sem láta munu af störfum við 65 ára aldur hafi áhrif á mismun áfallinna skuldbindinga og eigna sjóðsins eða raski skuldbindingum launagreiðenda innbyrðis. Þá hefur ákvæðið ekki áhrif á útreikninga iðgjaldaprósentu launagreiðenda til A-deildar samkvæmt 4. mgr. 13. gr.

Sú skipan sem hér er lögð til leiðir til þess að þær skuldbindingar sem stofnað er til verða ekki virkar gagnvart ríkinu fyrr en hlutaðeigandi lögreglumaður hefur látið af embætti sínu við 65 ára aldur. Að því leyti sem þær verða reiknaðar með í framtíðarskuldbindingum, þ.e. heildarskuldbindingum lífeyrissjóðsins, verður að sama skapi reiknað með framtíðariðgjöldum vegna þeirra.

Í ákvæði til bráðabirgða, sem er 3. gr. frv., er stefnt að því að tryggja samræmi við ákvæði til bráðabirgða í frv. dómsmrh. til breytinga á lögreglulögum. Þannig er miðað við að lögreglumönnum sem orðnir eru 65 ára við gildistöku laganna en hafa ekki enn látið af störfum verði veitt lausn í síðasta lagi 1. október 2002, enda hafi þeir þá ekki valið að um starfslok þeirra fari eftir eldri reglum.

Lögreglumenn sem hér falla undir geta að sjálfsögðu óskað strax eftir lausn frá embætti og hafið töku lífeyris á grundvelli sérreglunnar. Hafi þeir á hinn bóginn ekki gert það fyrir 1. okt. nk., er gert ráð fyrir að þeim verði veitt lausn frá og með þeim tíma og taki í framhaldi af því lífeyri samkvæmt hinni nýju reglu.

Loks er í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðsins gert ráð fyrir því að sérreglan taki einnig til þeirra lögreglumanna sem orðið hafa 65 ára eftir 13. júlí 2001 og hafið töku lífeyris í framhaldi af því.

Ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.