Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:06:30 (4816)

2002-02-18 16:06:30# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:06]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Tiltölulega nýverið var starfskjörum opinberra starfsmanna breytt með aðlögunarsamningum sem færðu dagvinnulaun nær raunverulega greiddum launum. Við þessa breytingu, sem ég varaði við á sínum tíma, jukust skuldbindingar ríkissjóðs óskaplega, þ.e. um 100 milljarða á fimm árum. Herra forseti, 100 milljarðar á fimm árum er tala sem enginn skilur þangað til hún er sett í eitthvert samhengi, t.d. hækkun á dag. Aðlögunarsamningarnir hafa valdið aukningu á skuldbindingum ríkissjóðs um 55 millj. á dag, hvern einasta dag ársins, sunnudaga sem aðra daga. Þvílíkar eru tölurnar. Þetta er allt ógreitt, herra forseti, og meira til. Það eru 170 milljarðar ógreiddir, sem ríkissjóður á eftir að greiða til velferðarkerfisins. Velferðarkerfið er meira og minna ógreitt.

Nú er strax byrjað að grafa undan þessu nýja kerfi sem sett var á með vísan til þess að lögreglumenn sinni erfiðu starfi. Ekki skal ég draga það í efa. En það eru fleiri stéttir sem sinna erfiðum störfum, herra forseti. Þar vil ég sérstaklega nefna grunnskólakennara sem eru að ala upp börn sem oft eru afskaplega óöguð og óþekk. Það er mjög erfitt starf. Ég vil einnig nefna hjúkrunarfólk í bráðamóttöku og hægt er að nefna fjölda dæma um fólk í opinberri þjónustu, fangaverði o.s.frv. Allt þetta fólk mun koma í kjölfarið. Það mun koma í kjölfarið og krefjast hins sama.

Nú gæti einhver sagt að það muni ekki miklu hvort maður fer á lífeyri 65 eða 70 ára. En það munar því að skuldbindingin vex um 40%, til viðbótar við þá 100 milljarða sem skuldbindingin hefur vaxið um á síðustu fimm árum. Ég vara eindregið við meiri aukningu á þeirri skuldbindingu og mér þætti skemmtilegra ef einhver benti mér á hvernig ætti að greiða þessi ósköp. Ég bendi á að allar tryggingagreiðslur almannatrygginga til öryrkja- og ellilífeyrisþega, barna og einstæðra mæðra o.s.frv., eru um 15 milljarðar á ári. Við erum að tala um margfalda þá tölu. Allar lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðunum eru líka um 15 milljarðar á ári. Samtals 30 milljarðar en aukningin ein sér hefur verið 20 milljarðar á ári síðustu fimm árin. Hvernig ætla menn að borga þetta?

Ég bendi á að öll laun opinberra starfsmanna og allar skuldbindingar vegna opinberra starfsmanna eru greidd af hinum hluta þjóðarinnar. Þeir sem ekki eru opinberir starfsmenn eru 80% af þjóðinni. Þeir munu standa undir þessu. Þeir munu standa undir þessu, börnin okkar í framtíðinni, með sköttum. Þetta er allt meira og minna ógreitt. Mér þætti gaman ef einhver segði mér, t.d. hæstv. fjmrh., hvernig á að borga þetta? Hvernig ætla menn að borga enn meiri skuldbindingar? Hvílík léttúð er að gera svona kjarasamninga.

Hér eru ýmsar útfærslur á að þetta skuli greitt í sjóðinn þegar kemur að uppsögn, þegar maðurinn hættir störfum o.s.frv., það breytir grundvallaratriðinu ekki neitt. Það er verið að búa til nýja skuldbindingu. Þetta mun fara út um allt kerfið. Fyrst byrja fangaverðir, röðin er sú væntanlega að fangaverðir koma næst á eftir. Síðan kemur fólk á bráðamóttöku, hjúkrunarfólk. Þá koma grunnskólakennarar, framhaldsskólakennarar, flugumferðarstjórar o.s.frv. Allt eru þetta skuldbindingar sem settar eru á restina af þjóðinni, sem með sköttum á að greiða þetta í framtíðinni.

Menn hafa líka sagt að þetta sé ákveðinn stjórnunarvandi, svo mikið sé af eldri lögregumönnum að það horfi til vandræða. Stjórnun leysir maður öðruvísi heldur en með auknum skuldbindingum á ríkissjóð. Það leysir maður öðruvísi.

Ég sé því enga þörf fyrir þetta frv. Ég mun greiða atkvæði gegn því. Þarna er verið að setja fullfrískt fólk, 65 ára, á lífeyri. Það er ekki bara réttur heldur skylda. Lögreglumenn skulu, samkvæmt því frv. sem við ræðum hér á eftir, um breytingu á almennum hegningarlögum og lögreglulögum, leystir frá embætti þegar þeir eru orðnir fullra 65 ára eða fyrr. Fullfrískir menn. Nú er það þannig að ævin er alltaf að lengjast. Menn eru alltaf að verða eldri og eldri, frískari og frískari. Á sama tíma ætla menn að setja fullfrískan, 65 ára gamlan, sprækan lögreglumann á eftirlaun sem gamalmenni. Þetta er öfugþróun, herra forseti. Það ætti frekar að setja viðkomandi á námskeið, líkamsræktarnámskeið eitthvað svoleiðis, ef hann hefur þörf fyrir það.

Herra forseti. Mér finnst að þarna sé um léttúðuga samningagerð að ræða. Léttúðuga, þar sem menn hafa skrifað undir samninga undir þrýstingi og samið um stórfelldar skuldbindingar fyrir ríkissjóð.