Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:19:02 (4820)

2002-02-18 16:19:02# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:19]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. tók undir það sem ég sagði. Hann horfir til sjúkrahúsanna í þessu sambandi. Hann horfir sem sagt á það að aðrar stéttir komi í kjölfarið strax og stórauki þessa skuldbindingu sem enn er ógreidd. Hann tók ekkert á því hvernig ætti að greiða þetta enda virðist hv. þm. vera alveg sama um hver eigi að geiða ósköpin. Og hver skyldi greiða þessi ósköp? Útlendingar? Japanar? Nei, íslenskir skattgreiðendur. Það eru félagsmenn í ASÍ, og þótt hann væni mig um að ég sé að sá fræjum sundrungar þá er þetta staðreynd. Engir aðrir en skattgreiðendur greiða laun opinberra starfsmanna alla tíð. Það getur enginn annar gert það.

Ekki vill hann selja ríkisfyrirtækin til að borga laun opinberra starfsmanna, eða hvað? Það verður væntanlega ekki ofan á. Enginn svarar þessu. Ég spurði hv. þm. hvað það þýddi þegar hann lagði áherslu á að lögreglumenn gætu hætt í ,,því starfi``? Hann svaraði því ekki heldur. Hér er verið að búa til óútfylltan tékka til framtíðar stílaðan á börnin okkar, á framtíðarskattgreiðendur, á íslenskt atvinnulíf og íslenska velmegun í framtíðinni. Ég er ekki sáttur við slíka tékkaútgáfu. (Gripið fram í.)