Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:22:08 (4822)

2002-02-18 16:22:08# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:22]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur eðli lögreglustarfsins breyst mjög mikið. Það vitum við sem fylgst höfum náið með því hvernig lögreglan vinnur og við hvaða aðstæður hún vinnur hverju sinni. Það er viðurkennd staðreynd. Það er ekki bara krafa lögregumanna, það er krafa almennings að búa við ákveðið öryggi, sérstaklega á tímum þegar eðli afbrota hefur breyst og aukin fíkniefnaneysla blasir við. Stór hluti af því að takast á við þetta breytta umhverfi var m.a. að ,,yngja upp`` lögreglulið landsins. Við vitum að á nokkrum stöðum á landinu hefur verið lögreglulið þar sem vissulega hafa verið fullfrískir menn miðað við aldur en engu að síður verið komnir á þann aldur að erfitt hefur verið fyrir þá að fást við erfið afbrot eða ofbeldistengd afbrot. Menn hafa veigrað sér við að senda lögregluþjón sem kominn er á hátt á sjötugsaldur á vettvang ofbeldisafbrota. Þeir hafa reyndar átt möguleika á því að gegna dagvöktum en ekki borið skylda til þess að ganga vaktir.

Ég tel að hæstv. dómsmrh. og hæstv. fjmrh. hafi með þeim samningum um starfslok sem gerðir voru í sumar, þ.e. að hægt væri að hefja töku lífeyris 65 ára, stigið mjög stórt skref við að reyna að lagfæra þessa stöðu um leið og farið var í átak til þess að fjölga í Lögreguskólanum til þess að yngja upp lögreguliðið í landinu. Þetta er mjög stórt skref og mikilvægt að mínu mati.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Pétur Blöndal kom hérna inn á, að í sumum tilvikum og mörgum tilvikum, flestum jafnvel sem betur fer, er um að ræða fullfríska einstaklinga 65 ára. Samt sem áður eru kröfur þessa starfs og eðli þannig að 65 ára einstaklingur getur ekki tekist á við það eins og við krefjumst. Því var nauðsynlegt að stíga þetta skref.

Hvort aðrar stéttir komi á eftir verður bara að koma í ljós en þá verða menn líka að meta aðstæður, starfsaðstæður hverrar stéttar fyrir sig. Það hlýtur að vera viðurkennd staðreynd --- meira að segja hlýtur hv. þm. Pétur Blöndal að viðurkenna það --- að lögreglan býr við mjög sérstakt starfsumhverfi, krefjandi og lýjandi og sem slítur mönnum mun fyrr en mörg önnur störf í þjóðfélaginu.

Laun lífeyrisþega eru vissulega greidd af vinnandi fólki. En við skulum heldur ekki gleyma því að þessi stétt hefur við 65 ára aldur, þ.e. lögreglumaður sem ákveður að hætta störfum 65 ára hefur svo sannarlega skilað sínu til þjóðfélagsins, ekki bara í launum heldur í störfum.

Það má ekki horfa á þetta þannig að um sé að ræða greiðslur til einstaklinga sem hafi ekki skilað neinu til þjóðfélagsins, hvorki í ríkiskassann né störfum. Mér fannst helst mega skilja hv. þm. þannig. Ég held að nauðsynlegt sé fyrir hv. þm. sem jafnframt er stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og hefur stutt ýmislegt sem ég get ekki fellt mig við að kynna sér starfsumhverfi lögreglunnar og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu dómsmrh. til þess að reyna að styrkja stöðu lögreglunnar og þá um leið borgara þessa lands, skoða það og kynna sér það áður en haldnar eru ræður eins og hér áðan.

Ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við þetta frv. Ég efast ekki um að það muni hafa í för með sér töluverðan kostnað fyrir ríkið sem við verðum að mæta og það er nokkuð sem ríkisstjórn á hverjum tíma verður að takast á við. Hér er um gerða samninga að ræða, samninga sem munu skila þessari stétt kjarabót, en munu líka skila sér í mun betri löggæslu fyrir borgara landsins.