Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:34:13 (4827)

2002-02-18 16:34:13# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil segja aðeins örfá orð í ljósi þeirra orðaskipta sem hér hafa átt sér stað, sérstaklega yfirlýsinga frá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég leyfi mér að fullyrða að ríkissjóður hefur stórlega hagnast á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins í tímans rás. Þetta þarf að skoða með tilliti til samspils almannatrygginga og lífeyrissjóðsins.

Lífeyrissjóðurinn hefur orðið þess valdandi að greiðslur úr almannatryggingum hafa verið miklu lægri en þær ella hefðu orðið.

Í annan stað vil ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að ríkissjóður, og þetta á einnig við um mörg sveitarfélög sem hafa notað lífeyrissjóði sína á samsvarandi hátt, hefur í tímans rás notað þessa fjármuni sem mjög ódýrt lánsfjármagn. Við þurfum því að skoða heildardæmið áður en við reiðum sleggjuna til höggs og kveðum upp sleggjudóma eins og þá sem við oft heyrum frá hv. þm. Pétri H. Blöndal um lífeyrismálin.