Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:01:21 (4835)

2002-02-18 17:01:21# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:01]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum og lögreglulögum. Hér er auðvitað um að ræða breytingu á tveimur lagabálkum, þ.e. annars vegar almennum hegningarlögum og hins vegar lögreglulögum. Í raun er umræðan líka tvíþætt hvað frv. varðar.

Áðan fór fram mikil umræða um breytinguna á lögreglulögunum og lífeyristökualdurinn. Ég vil bara lýsa stuðningi við það frv., sem er afar gott. Ég vil meina, ef við byrjum á því að taka fyrir lögregluna, að það horfi til hins betra að lögreglumenn geti hætt 65 ára þar sem starfsumhverfið hefur náttúrlega breyst gríðarlega mikið á liðnum árum, síðustu 15--20 árum. Jafnframt vil ég taka undir þessa opnun varðandi Lögregluskólann. Við ættum jafnvel að geta mannað lögreglusveitina betur og fengið fleiri að því máli.

Það sem ég vil helst gera að umræðuefni í þessu frv. er aðallega 2. gr. Ég vil gera athugasemdir við nýmæli sem þar er um að ræða --- svo er reynar einnig í 1. gr. --- en í 2. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Ef uggvænt þykir að óspektir verði á mótmælafundi, í kröfugöngu eða á annarri slíkri samkomu á opinberum stað er lögreglu heimilt að banna að maður hylji andlit sitt eða hluta þess með grímu, hettu, málningu eða öðru þess háttar sem er til þess fallið að koma í veg fyrir að kennsl verði borin á hann.``

Fyrir það fyrsta er náttúrlega með ólíkindum að við þurfum alltaf að ganga skrefinu lengra en allar aðrar þjóðir. Það er ekki nokkur þjóð með ákvæði um að ekki megi vera málaður í framan, í fánalitum eða öðru. Við skulum líka halda því til haga að ef tekin er ljósmynd af viðkomandi manneskju með málningu á andlitinu, t.d. stríðsmálningu eins og hermaður, þá er ekkert mál að ná málningunni í burtu, viðkomandi þekkist alltaf. Þetta ákvæði með málninguna þekkist ekki í nokkrum öðrum lögum.

Hins vegar má ræða þetta með grímuna og hettuna. Ég er voðalega fegin að sérstaklega sé tekið á því ef um er að ræða grímudansleiki, að þá sé fólk ekki handtekið. Því er haldið til haga að öskudansleikur geti gengið eftir eins og hann á að gera og fólk geti haldið álfadans, eins og segir hér í grg. með frv.

En ég vil bara benda á að engin ástæða er til að við göngum lengra en allar aðrar þjóðir í þessum efnum, ekki nokkur. Ég mun kalla eftir því í nefndinni að fá þau lög send vilji svo til að slíkt sé í löggjöf annarra landa. Það kemur hvergi fram í grg. að málning sé bönnuð t.d. í Noregi, Danmörku, Hollandi, Bretlandi eða Þýskalandi. Það er minnst á þau lög hérna en þar hefur bæði verið grímu- og hettubann í mörg ár í mörgum þessara landa. Það er ekkert óeðlilegt. Hins vegar þekkjum við að í Bandaríkjunum eru menn ekki eins harðir á þessu með grímurnar. Við könnumst við grímur bæði af Bush og Clinton og þeim forsprökkum öllum sem mikið eru notaðar, bæði í skrúðgöngum og mótmælagöngum. Slíkt mun ekki lengur hægt hér og hefði þó oft mátt vera örlítinn húmor í þessum mótmælagöngum.

Það sem okkur finnst sérkennilegt við þetta frv. er að hér hefur verið afar lítið um harðar mótmælaaðgerðir. Ég man bara eftir tveimur tilvikum í seinni tíð, þ.e. gamla Þorláksmessuslagnum og svo þegar Li Peng kom en þá var það fremur slagur gagnvart fjölmiðlum um hvernig þeir gætu komist að þeim háttsetta manni.

Ég get líka tekið undir að eftir 11. sept. þarf að vernda betur sendiráðssvæði og annað. Við þurfum að verða meðvitaðri um slíka þætti. Ég minni á umræðu sem fór fram í eina tíð er verið var að byggja Ráðhúsið sem stendur hér í Tjörninni, að þá var t.d. ekki haft fyrir því að setja skothelt gler á þennan stóra gluggavegg þar sem bæði borgarstjóri og embættismenn og aðrir standa og tala. Auðvitað hugsuðu menn um það eftir á að það hefði kannski verið ákveðin skammsýni. Við verðum að hafa vaðið fyrir neðan okkur hvað svona hluti varðar, vera skynsöm og gera líka ráð fyrir hinu versta þó að það eigi ekki að gegnsýra alla hluti.

Ég var hins vegar mjög ánægð með að hæstv. dómsmrh. talaði um að þetta væri sett inn til sem fyrirbyggjandi ráðstafanir. Ég tek undir það en minni á umræðuna sem var hér um útlendingafrv. Þar var rætt um fyrirbyggjandi ráðstafanir varðandi hagsmuni barna og ég vildi gjarnan að við skoðuðum það líka í því samhengi. Hins vegar er auðvitað brýnt að þetta fari í gegn. Hér er væntanlegur stór NATO-fundur. Við skulum hafa í huga að auðvitað flýtir það líka fyrir þessu á einhvern hátt og auðvitað 11. sept. þar sem þetta hangir allt saman. Ég vil bara minna á að varðandi málninguna erum við að ganga skrefi lengra en aðrir. Ég vil að við skoðum það sérstaklega í nefndinni.

Ég bendi einnig á nokkuð afar gagnlegt í greinargerðinni. Þar er fjallað um það sem kallað er ,,hooligans``, þ.e. fótboltabullur. Mér finnst mjög ánægjulegt að tekið sé á því en ekki aðeins í hinu pólitíska litrófi. Í rauninni eru svona ógnvænlegir atburðir alls ekki alltaf af pólitískum toga. Þeir eru oft af öðrum toga og glæpsamlegum á stundum.

Mér finnst hins vegar að við eigum að skoða þetta með málninguna. Nútímatæknin gerir það lítið mál með ljósmynd af máluðum manni að finna út hvernig andlitið á honum er í raun. Tæknin hefur breyst og mér finnst að við eigum ekki að ganga lengra en aðrar þjóðir sem vilja hafa lýðræði í hávegum.

Í greinargerð kemur líka sterklega fram að gæta þurfi að persónufrelsi, til hvers er höfðað þar. Það er afar brýnt að halda því til haga þess að við sjáum ekki hér eins kröftugar mótmælaaðgerðir og orðið hafa úti í hinum stóra heimi.