Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:13:06 (4840)

2002-02-18 17:13:06# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:13]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið við umræðuna er þetta frv. tvíþætt. Annars vegar lýtur það að lífeyrisréttindum lögreglumanna, en við höfum rætt það fyrr í dag. Gera þarf breytingu á fleiri en einum lögum til að það markmið nái fram að ganga að stytta starfsævi lögreglumanna.

Hins vegar eru aðrir þættir sem ég ætla að gera lítillega að umræðuefni og vísa ég þar í 2. gr. frv. þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ef uggvænt þykir að óspektir verði á mótmælafundi, í kröfugöngu eða á annarri slíkri samkomu á opinberum stað er lögreglu heimilt að banna að maður hylji andlit sitt eða hluta þess með grímu, hettu, málningu eða öðru þess háttar sem er til þess fallið að koma í veg fyrir að kennsl verði borin á hann.``

Þetta er viðbót við 15. gr. í lögreglulögum. Það hefur komið fram hér við umræðuna og verið lögð á það áhersla að hér sé einvörðungu um heimild að ræða, það sé ekki fortakslaust að fólki skuli meinað að mála á sér andlitið, bera hettu eða lambhúshettu í mótmælagöngum --- enda gæti það nú verið erfitt hér á landi í mótmælagöngum um miðjan vetur að meina fólki að klæða af sér kuldann. En enda þótt þetta sé aðeins heimildarákvæði þá gera menn sér grein fyrir því að hér erum við komin inn á mjög grátt svæði. Ég vitna þar í grg. með frv. þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

[17:15]

,,Bann við því að maður hylji andlit sitt með grímu, hettu eða öðrum aðferðum getur falið í sér skerðingu á persónufrelsi hans skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sbr. stjórnarskipunarlög, nr. 97/1995, en ekki síður á tjáningarfrelsi hans, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, enda getur það verið mikilvægur þáttur í tjáningu ákveðinnar skoðunar. Verður einnig að skýra þessi ákvæði í ljósi 8. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Skv. 2. og 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 3. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er heimilt að skerða þessi réttindi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þess er krafist að takmörkun byggist á lögmæltri heimild, markmið hennar sé réttmætt auk þess sem taka verði tillit til meðalhófsreglunnar um að ekki verði gengið lengra í skerðingu réttinda en nauðsyn ber til.``

Lýkur hér tilvitnun minni í grg. með frv.

Með öðrum orðum gera menn sér grein fyrir því að við erum komin inn á mjög grátt svæði. Hér er vísað í tjáningarfrelsi manna, í stjórnarskrárbundin réttindi, í mannréttindasáttmála Evrópu og þar fram eftir götunum og sagt að við þurfum að fara gætilega.

Ég lýsi yfir miklum efasemdum við að festa þetta ákvæði í lög. Ég set einnig spurningarmerki við það sem segir í grg. með frv., að engin ástæða sé til að ,,ætla að þróunin muni verða á annan veg hér en í nágrannalöndunum``, og er þar vísað í mótmæli sem hafa fylgt ýmsum alþjóðafundum á opinberum vettvangi. Það er alveg rétt að færst hefur í vöxt í tengslum við fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að þeim hafa fylgt óspektir og óeirðir. Þessar stofnanir hafa reyndar verið sakaðar um að vilja hylja og múra inni alla umræðu innan sinna veggja, og ákvarðanir sem þar hafa verið teknar hafa verið afar umdeildar. Þessar stofnanir hafa allar þröngvað eða lagt sitt af mörkum til að þröngva fátækum ríkjum til að afsala sér verðmætum eignum og einkavæða í þágu fjölþjóðlegra auðhringa. Þetta hefur vakið mikla reiði víða um lönd og vakið mótmælin sem stundum hafa því miður verið ofbeldisfull í tengslum við þessa fundi.

Ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að á Íslandi sé efnt til alþjóðlegra funda en vonandi veljum við aðila sem hafa ekki svo slæman málstað að þeir kalli á mótmæli og óspektir af þessu tagi. Og ég held að við eigum ekki alltaf að búast við hinu versta. Ég held að löggjöf sem er sniðin með það í huga sé slæm löggjöf. Þannig hafa lögreglumenn starfað í þeim anda að búast ekki við hinu versta heldur hinu besta og ætla mönnum jákvæða hluti fremur en neikvæða. Þannig hafa þeir t.d. lagst gegn því að lögreglan hér á landi bæri vopn. Ofbeldi hefur verið að færast í vöxt í tengslum við fíkniefnaneyslu og stöku manni hefur þótt full ástæða til að lögreglan bæri vopn. Engu að síður hafa samtök lögreglumanna lagst gegn því. Ég held að það sé gott og hyggilegt.

Ég minntist þess við umræðu um annað frv. ekki alls fyrir löngu að þegar ég var starfandi fréttamaður í Kaupmannahöfn voru einhverju sinni allir forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlandanna saman komnir til fundar. Engar öryggisráðstafanir voru gerðar, og spurt var: Eru menn ekki að taka mikla áhættu með þessu fyrirkomulagi? En mat manna var að það væri meira virði að halda vopnunum og öryggisgæslunni frá og gefa sér ekki að til væru þeir aðilar sem vildu þessum mönnum, körlum og konum, illt.

Ég held að þetta sé góð afstaða. Ég held að þetta sé gott og hollt í lýðræðisríki. Ég held því að við ættum að bíða eftir því að atburðirnir yrðu á þann veg að við ættum ekki annarra kosta völ en að grípa til einhverra ráðstafana til að verjast ofbeldisseggjum en við eigum ekki að festa þetta í lög núna.

Síðan skulum við velja okkur góða vini og efna til ráðstefnuhalds þar sem menn hafa sæmilega góða samvisku og kalla ekki á óspektir og mótmæli, oft og tíðum mjög réttmæt mótmæli.