Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:29:08 (4846)

2002-02-18 17:29:08# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég mun gera það sem við eigum væntanlega öll að gera, hlíta samvisku minni. Þannig eigum við að starfa hér á þinginu. Að sjálfsögðu mun ég hlusta á röksemdir sem koma frá Landssambandi lögreglumanna en um þetta atriði hef ég miklar efasemdir.

Mér finnst ekki vera alls kostar rétt eða nákvæmt af hálfu þingmannsins að líta svo á að hér sé verið að skýra betur lögin og jafnvel tryggja betur réttarstöðu borgarans. Eins og ég skil þetta eru lögin takmarkandi hvað það snertir. Það er verið að banna eða veita lögreglunni heimild til að banna að fólk hylji andlit sitt eða hluta þess með grímu, hettu, málningu eða öðru þess háttar við mótmæli.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég sleppti því sem hún las, og reyndar sleppti ég mörgum síðum af lesefni.

En hér segir, eins og fram kom réttilega hjá hv. þm., með leyfi forseta:

,,Sú takmörkun sem gerð er á tjáningarfrelsinu með frumvarpinu er í þágu allsherjarreglu og grundvallast á þörfinni til að halda uppi lögum og reglu og koma í veg fyrir óeirðir og þau refsiverðu brot ...`` o.s.frv. Sem sagt, sú takmörkun sem gerð er á tjáningarfrelsi með frv. er í þágu allsherjarreglu. Frumvarpssmiðirnir líta því svo á að hér sé verið að takmarka tjáningarfrelsið enda er vísað í mannréttindasáttmála Evrópu, íslensku stjórnarskrána og við síðan hvött til að fara með gát.