Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:30:57 (4847)

2002-02-18 17:30:57# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg hárrétt. Þess vegna er verið að fara með gát í þessu frv. Það er verið að gera heimildirnar skýrari þannig að þær séu öllum sjáanlegar, en um leið er farin afar varfærin leið. Og eins og hæstv. dómsmrh. hefur komið vel inn á þá förum við mun vægari leiðir en nágrannaþjóðir okkar sem við þó viljum bera okkur saman við alla jafna.

Ég vil rétt aðeins hnykkja á því líka að lögreglumenn hafa auðvitað heimild til að bera byssu þó að þeir hafi ekki nýtt sér þá heimild.

Ég vil einnig taka undir með hv. þm. að auðvitað eiga þingmenn að fara eftir samvisku sinni í hvert skipti sem þeir greiða hér atkvæði og eru að fjalla um mál og það veit ég að allir hv. þm. gera.

Mig langar til að nefna þessa miklu mótmælafundi. Ég velti því fyrir mér einmitt í kjölfar fréttaflutnings af Genúa og Gautaborg --- þá var þessi heimild til að mynda ekki fyrir hendi í Svíþjóð --- hvort hún hefði hugsanlega getað komið í veg fyrir þessar óeirðir. Ég velti því hér upp hvort skýrari heimildir lögreglu þar fyrir fundinn hefðu getað leitt til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir fundina eða orðið til þess að mótmælin yrðu friðsamlegri, en ekki að þessir atvinnumenn í mótmælum, sem við vitum öll að eru til, réðu ferðinni. Það eru til atvinnumenn í mótmælum sem flakka milli funda og gera í því að hleypa upp annars hugsanlega nokkuð merkilegum mótmælafundum.

Ég ætla það ekki að hv. þm. sé að hugsa um hið mikla friðarbandalag sem NATO er. Ég geri ekki ráð fyrir því að miklar óspektir verði á þeim merkilega fundi sem verður í Reykjavík í vor og við fögnum náttúrlega öll. En mig langar til að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson hvort hann komi til með að styðja það að lagt verði bann við hettum og grímum ef rökstuddur grunur er um að hingað komi menn með það að markmiði að hleypa upp fundinum.