Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:41:00 (4852)

2002-02-18 17:41:00# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekki ágreining um það við hæstv. dómsmrh. að það þurfi að huga að svona atriðum, sérstaklega ekki í sambandi við dæmi eins og hún nefndi um knattspyrnubullurnar. Ég vakti bara athygli á því að afar erfitt kann að vera að framkvæma þetta þegar kannski daginn er áður leikur þar sem eru eingöngu íslenskir þátttakendur og þeir eru málaðir í bak og fyrir og ekkert á að skipta sér af þeim. Við vitum ekki hvort eitthvað kemur upp. Sem betur fer gerist það yfirleitt ekki. En við mundum grípa til slíkra aðgerða daginn eftir gagnvart erlendu fólki máluðu eins og Íslendingarnir daginn áður. Ég er að vekja athygli á því, hæstv. ráðherra, að þarna er mjög mikið matsatriði hvernig á með að fara og það liggur ekkert alveg skýrt fyrir hvernig við getum notað þessar lagaheimildir án þess að brjóta jafnræðisreglu á fólki.