Varnir gegn landbroti

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:46:25 (4854)

2002-02-18 17:46:25# 127. lþ. 79.9 fundur 504. mál: #A varnir gegn landbroti# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:46]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er drepið á stóru máli og lagt fram frv. til laga um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna. Þetta er víða mikið vandamál og vil ég sérstaklega nefna Suðurland. Þar er þetta víða gríðarlegt vandamál og er svo sem ekki nýtt.

Hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir því að hann telji að þetta frv. geri kleift að bregðast skjótar við og að eftir að frv. yrði samþykkt væri greinilegra hver hefur það hlutverk að stýra aðgerðum. Nú á ég eftir að fara ofan í þetta frv. nákvæmlega í hv. nefnd en ef satt reynist er það gleðilegt, þ.e. ef tekst að skýra það, því það hefur ekki alltaf verið ljóst.

Í frv. er Landgræðslunni falið það hlutverk að stýra aðgerðum. Talað er um að við meiri háttar framkvæmdir sé sem fyrr gert ráð fyrir aðkomu Vegagerðarinnar. Ég er með merkilegt plagg frá Landgræðslunni, Landbrot af völdum Markarfljóts og varnaraðgerðir, sem kom út í mars 1998. Þar er sagt frá fyrstu tilrauninni til að stjórna rennsli Markarfljóts, fyrstu tilraun af því tagi sem vitað er um. Hún var gerð í Vestur-Eyjafjallahreppi árið 1900 þegar 50 bændur voru skikkaðir til að bera torf og grjót og hlaða fyrir einn ál. Það var svo Ungmennafélagið Drífandi sem hratt af stað aðgerðum 1910 þegar Seljalandsgarðurinn var hlaðinn. Sá garður var 700 metra langur og gríðarlegt mannvirki miðað við þá tækni sem fólk hafði þá yfir að ráða. Þess má geta að flytja þurfti allt grjótið í fyrirhleðsluna á hestum. Ungmennafélagið og bændur í hreppnum lögðu til í þessa hleðslu 700 dagsverk en landstjórnin og Búnaðarfélagið borguðu helming kostnaðarins.

Lög um samgöngubætur og fyrirhleðslur á samgöngusvæði Markarfljóts og varnir gegn ágangi vatns eru frá 1932. Þá var samt sem áður ekki gert ráð fyrir fjármögnun verkefnisins. Þegar stofnað var til byggingar brúar við Litla-Dímon 1933 var safnað fé í héraði fyrir því mannvirki. En það var þá stærsta brú landsins. Í hana fóru 6 þús. dagsverk en 12 þús. dagsverk alls í byggingu varnargarðs frá Stóra-Dímon sem varð um 2 km að lengd. Þarna var allt handmokað og flutt á litlum vörubílum en þó hafði orðið mikil framför frá árinu 1910.

Síðan hefur meira og meira fé verið varið til byggingar varnargarða við Markarfljót. Þó vantar enn gríðarlega á, eftir því sem mér hefur skilist. Við Markarfljót er þörf meiri varnaraðgerða en við nokkurt annað vatnsfall hér á landi samkvæmt mati höfunda þessarar skýrslu. Þegar skýrslan er samin 1998 er talið að brýnar aðgerðir til að varna gróðurskemmdum hafi verið látnar bíða.

Minnst er á lög frá 1975, breytt lög um fyrirhleðslur. Í þeim var Landgræðslu ríkisins falin umsjón fyrirhleðslna en Vegagerðin hafði áður það hlutverk. Þó að Landgræðslunni hafi verið falið þetta hlutverk hefur Vegagerðin í samráði við Landgræðsluna reyndar áfram haft veg og vanda af öllum varnargörðum við Markarfljót en kostnaður verið greiddur af fjárlögum. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra varðandi Markarfljót, hvort hann telji að þetta breytist með hinum nýju lögum. Það stendur hér að við meiri háttar framkvæmdir sé sem fyrr gert ráð fyrir aðkomu Vegagerðarinnar. Eru þær aðgerðir sem eftir er að ráðast í við Markarfljót metnar sem meiri háttar framkvæmdir og munu þær áfram heyra undir Vegagerðina? Það er tekið fram í þessari skýrslu að gífurleg sjálfgræðsla lands hafi orðið í skjóli varnargarðanna vestan Markarfljóts. Í skjóli garðanna eru jafnframt mjög verðmæt mannvirki eins og vatnslögn til Landeyja og Vestmannaeyja og lagnir Landssímans. Þetta var um Markarfljót.

Talað er um að þau lög sem núna eru í gildi hafi alls ekki náð tilgangi sínum, t.d. að það ákvæði laganna að vera eigi matsnefndir í hverri sýslu hafi ekki virkað. Það hefur einnig reynst mjög erfitt að fara eftir ákvæðum um kostnaðarskiptingu í núverandi lögum. Í frv. er gengið út frá þeirri meginreglu að sá beri kostnaðinn sem á samgöngumannvirkið eða veitumannvirkið sem ætlunin er að vernda. Þá dettur mér í hug, af því ég minntist á vatnslögn til Landeyja og Vestmannaeyja, lagnir Landssímans o.s.frv., hvort meiningin sé að t.d. Vestmannaeyjabær kosti viðgerðir við þann varnargarð sem er sérstaklega hlaðinn til að varðveita vatnsveituna. Mér leikur forvitni á að fá að vita þetta.

Ég veit að það eru önnur lög sem gilda um landbrot af völdum sjávar. Ef ég hef skilið þetta rétt heyra þau lög undir Siglingastofnun en mér koma í hug mannvirki við Jökulsárlón þar sem mjög brýnt er að farið verði í varnaraðgerðir. Jafnvel þó að þar sé ekki gróðurlendi er þar gríðarlega verðmæt ferðaþjónusta. Það þykir ekki merkilegur túr til Íslands ef í honum er ekki innifalið að sjá Jökulsárlón. Það er einn af þeim viðkomustöðum á landinu sem flestir ferðamenn koma til. Ég held að það væri afskaplega mikill skaði ef við misstum þann stað vegna landbrots sem mér skilst að horfi í. Þá er mér spurn: Undir hvern mundi það landbrot og þær aðgerðir sem þar þarf að ráðast í heyra? Heyra þær undir Siglingastofnun, mundu þær heyra undir Landgræðsluna eða kannski hvora stofnunina um sig?

Að lokum langar mig að minnast á afskaplega brýnar varnaraðgerðir sem þarf að ráðast í við Skaftá. Bóndi þar á svæðinu fór með mig um svæðið og sýndi mér hvað þar er að gerast. Ég held að það fari ekki á milli mála að þar þarf að leggja fram mikla fjármuni og töluvert mörg dagsverk til að koma í veg fyrir óbætanlegt tjón.