Varnir gegn landbroti

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:57:13 (4855)

2002-02-18 17:57:13# 127. lþ. 79.9 fundur 504. mál: #A varnir gegn landbroti# (heildarlög) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:57]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. til laga um varnir gegn landbroti. Það er nauðsynlegt verkefni sem við þurfum að halda sívakandi og hafa skýr lög um hver hafi umsjón með þeim vörnum, þ.e. hvernig vinnuferlið eigi að vera.

Ég hef hlýtt á mál hæstv. landbrh. þar sem hann kynnti frv. Ég sit í hv. landbn. og þar munum við fara yfir frv. En mig langar að nefna nokkur atriði áður en farið verður í þá vinnu. Talað er um að það eigi m.a. að verja nytjalönd. Ég spyrst fyrir um skilgreiningu á orðinu ,,nytjaland``. Má vænta skilgreiningar á því? Það er mikilvægt að í meðferð landbúnaðarmála höfum við öll þessi hugtök skýr.

Eins vil ég nefna að í 6. gr. stendur:

,,Landgræðslan skal hafa samráð við viðkomandi búnaðarsamband eða héraðsráðunauta um forgangsröðun fyrirhleðsluverkefna. Hún getur einnig haft samráð við þessa aðila um eftirlit með framkvæmdum og viðhald fyrirhleðslna.``

Ég legg áherslu á að farið verði eftir því, að Landgræðslan skuli hafa samráð. Við megum ekki taka þá vinnu sem farið hefur fram úti í héruðunum og færa inn til Landgræðslunnar. Við verðum að nýta áfram þá sérfræðiþekkingu sem við höfum úti um land. Við getum fengið héraðsráðunautana í lið með okkur og gert þá ábyrga með Landgræðslunni, bæði hvað varðar verkefni og eftirlit.

Þegar kemur að 8. gr. sem fjallar um kostnað við fyrirhleðslur sé ég ekki fyrir mér hvernig kostnaðarliðurinn muni skiptast á milli Vegagerðarinnar og Landgræðslunnar. Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari því hvernig með verður farið ef um meiri háttar verkefni er að ræða sem Landgræðslan felur Vegagerðinni að útfæra, sé ekki verið að verja vegi eða mannvirki sem tengjast vegagerð. Mun þá Landgræðslan greiða Vegagerðinni fyrir þá vinnu sem fer í allan undirbúning að þeirri framkvæmd? Það er landbrh. sem á að skera úr um hver beri kostnaðinn. Er það eingöngu Vegagerðarinnar að fjármagna verkefnin þegar verið er að verja vegi og mannvirki þeim tengd? Mun þá Vegagerðin áfram hafa það á sinni fjárhagsáætlun og tengja fjárlagabeiðni á hverjum tíma vegna framkvæmda við vegagerð eins og verið hefur? Það þarf að koma skýrt fram að þessi verkefni verði áfram á kostnað Vegagerðarinnar svo skiptingin sé ljós.

Svo koma alltaf upp flókin dæmi í tengslum við mannvirki --- ég ætla að vona að við stöndum ekki frammi fyrir slíku á næstu árum en það gæti þó verið hugsanlegt --- svo sem varnir við Jökulsá á Breiðamerkursandi. Þar hefur land brotnað ört á undanförnum árum. Þurfi að bregðast við því landbroti eru þar mikil mannvirki og hagsmunir í húfi, bæði hringvegurinn, brot á hringveginum. Auk þess þarf að verja land en ekki síður vegi, símalínur og mannvirki sem eru komin mjög nærri sjávarlínunni núna. Að þessu koma hugsanlega margir. Alla vega verða þetta stórframkvæmdir þegar þar að kemur og ef að kemur. Kannski lenti slík framkvæmd undir stórframkvæmdaliðnum. En gott væri ef hæstv. landbrh. mundi fjalla aðeins frekar um þetta og útskýra betur hvað varðar ráðunautana, fjárhagsáætlun Vegagerðarinnar og greiðslur frá Landgræðslunni til Vegagerðarinnar fyrir þau verkefni sem Vegagerðin annast.

Annars vil ég, herra forseti, lýsa ánægju minni með frv. Við þurfum vissulega að halda uppi sterkum vörnum gegn landbroti. En ef við ætlum að hafa skilvirkari vinnuaðferðir þurfum við líka á meira fjármagni að halda í þennan málaflokk.