Varnir gegn landbroti

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 18:03:47 (4856)

2002-02-18 18:03:47# 127. lþ. 79.9 fundur 504. mál: #A varnir gegn landbroti# (heildarlög) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um varnir gegn landbroti sem hæstv. landbrh. hefur lagt fram, og er full þörf fyrir þetta frv. Við höfum séð á undanförnum árum mikið landbrot sem hefur orðið af völdum sjávar og fljóta, menn hafa stórar áhyggjur af því að hringvegurinn muni hreinlega eyðileggjast og við tengjum það snarlega í þessari umræðu.

Hér er verið að tala um hver eigi að bera kostnað af því þegar landbroti er varist. Í 8. gr., sem hv. þm. Þuríður Backman gerði að umtalsefni áðan, segir að landbrh. skuli skera úr um ef upp kemur ágreiningur um hver eigi að greiða kostnað. Það má velta fyrir sér hvort ekki geti í sumum tilvikum verið erfitt fyrir landbrh. að úrskurða um hvort t.d. Landgræðslan eða Vegagerðin eigi að greiða. Þessar stofnanir eru undir tveimur ráðuneytum, vænti ég, þannig að slíkur úrskurður gæti reynst honum erfiður, sérstaklega ef litlir fjármunir væru til ráðstöfunar í báðum ráðuneytunum. Það má svo velta fyrir sér í þessari umræðu og koma með spurningar um það hvað menn gera ráð fyrir að kostnaður við varnir gegn landbroti verði mikill á næstu árum. Eru til einhverjar áætlanir um það og sjá menn fyrir sér einhverjar fjárhæðir?

5. gr. gerir ráð fyrir því að verði umráðahafi lands var við landbrot eða telji hættu á því yfirvofandi eigi hann að tilkynna það til Landgræðslunnar og þá muni Landgræðslan skrá það niður. Það er gott að til séu upplýsingar á einum stað um það hvar menn telja vera hættu á landbroti. Hafið gengur stundum á land í miklum brimum og vályndum veðrum og bændur hafa séð að á einni nóttu getur umhverfi jarðarinnar við ströndina gjörbreyst. Menn sjá kannski fyrir sér að það sé mikil hætta á eyðingu. Við þekkjum það á sumum stöðum við ströndina þar sem eru bara venjulegar jarðir að sjórinn vinnur sitt og þá vakna spurningar hvort til séu nú þegar einhverjar upplýsingar um þetta og hvort komið hafi til Landgræðslunnar margar óskir frá bændum um hjálp eða aðstoð í baráttunni gegn landbroti. Maður hlýtur óhjákvæmilega í þessari umræðu að hugsa um þau gróðurhúsaáhrif sem talað er um og að yfirborð sjávar fari hækkandi á næstu árum. Ef svo verður vakna líka spurningar um hversu mjög við munum þurfa að standa í slíkum vörnum. Við þekkjum mörg til Hollands og sjáum þar og víðar í Evrópu gífurlega garða sem hafa verið reistir við ströndina til varnar landbroti þannig að það eru ærin verkefni fyrir höndum.

Ég geri sem aðrir hv. þm. hafa gert, ég lýsi yfir ánægju minni með að þetta frv. skuli vera komið fram og ég tel að töluverð umræða eigi eftir að fara fram um það í hv. landbn. Ég reikna með að það fái í meginatriðum jákvæða umfjöllun því að þetta er hið besta mál.