Varnir gegn landbroti

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 18:13:04 (4858)

2002-02-18 18:13:04# 127. lþ. 79.9 fundur 504. mál: #A varnir gegn landbroti# (heildarlög) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur orðið um þetta litla frv. og vangaveltur þingmanna um þá alvarlegu landeyðingu sem víða á sér stað vegna landbrots. Það er erfitt að hemja jökulfljótin og náttúruna enda er hún öflug. Ég þekki það sem íbúi á Suðurlandi að þær eru sterkar, jökulárnar, og bylta sér jafnvel á milli bakkanna á 100 ára fresti, hlaða undir sig, hverfa af öðrum bakkanum og koma svo með fullum þunga til baka. Mikil varnarbarátta hefur verið háð og þetta er mikil saga sem hér hefur verið farið yfir, saga mjög glæsilegrar varnarbaráttu, ekki síst meðan fólk var nánast verkfæralaust við þessar varnir og stóð sig vel, gamla fólkið, við að gera varnargarða. Menn höfðu ekki mörg ráð á verkfræðingum. Þar varð búmannsvitið að ráða og auðvitað gríðarleg þekking eldra fólksins á jökulvötnunum. Það kunni að lesa þau, vaða þau og verjast. Auðvitað er ekki langt síðan menn fóru að takast af heljarþunga á við þessar ólgandi ár sem klufu héruð, fóru upp úr farvegi sínum og gerðu mönnum lífið leitt.

[18:15]

En enn er verk að vinna eins og hér hefur komið fram og hafa hv. þm. velt upp nokkrum spurningum. Nú kann svo að vera, og auðvitað tek ég undir það, að hv. landbn. fer vel yfir þetta mál. En mér finnst frv. vera mjög skýrt, þ.e. ef menn lesa greinarnar og lesar þær kannski allar í stuttu máli því að frv. er ekki flókið eða margslungið. Tilgangur laganna er í 1. gr., skilgreiningar í 2. gr., yfirstjórn í 3. gr. og enginn vafi leikur á því að Landgræðslan fer fyrir hönd landbúnaðarráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi fjalla um. Það er alveg ljóst. Hlutverk Landgræðslunnar og forgangsröðun er í 4. gr. eða um framkvæmdina. Síðan kemur 5. gr. og hún er um hlutverk umráðahafa lands og skráning Landgræðslunnar eins og hér hefur verið nefnt. Síðan er það 6. gr. sem er um samráð um fyrirhleðslur. Þar kemur fram að þó að þessar matsnefndir falli út þá verður áfram haft samráð. Og eins og hér var spurt um af einum hv. þm. munu héraðsráðunautar áfram vera virkjaðir eða búnaðarsambönd til að ræða um forgangsröðun fyrirhleðsluverkefna. Síðan eru 7. og 8. gr., sem mér finnst afar skýrar, um framkvæmdir við fyrirhleðslur. Ef við lítum á athugasemdir við þær greinar þá segir um 7. gr., með leyfi forseta:

,,Þegar umfangsmiklar eða vandasamar fyrirhleðsluframkvæmdir eru fyrirhugaðar er það í höndum Vegagerðarinnar að annast verkið, þ.e. verkfræðilegan undirbúning, útboð svo og framkvæmdirnar sjálfar. Þetta er í samræmi við núgildandi lög um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna, nr. 43/1975. Vegagerðin skal þó ávallt hafa eðlilegt samráð við Landgræðsluna, sem telst framkvæmdaraðili verksins og ber ábyrgð sem slíkur.``

Í 8. gr. er síðan fjallað um hver beri kostnaðinn af fyrirhleðslum. Augljóslega getur hann verið mjög mismikill. Í fjárlögum hverju sinni skal ákveðið hversu hátt framlag Landgræðslan fær til slíkra framkvæmda, og það hefur, ef ég veit rétt, farið stighækkandi á síðustu árum sem betur fer og þingið hefur tekið verulega á í þessu efni og viljað veita meira fjármagn til fyrirhleðslna.

Þegar um er að ræða framkvæmdir sem Vegagerðin annast, sbr. 7. gr., á sú stofnun rétt á að fá framkvæmdakostnaðinn greiddan í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

Sé fyrirhleðsla gerð til að vernda mannvirki í eigu ríkisins eða sveitarfélaga er meginreglan sú að kostnaðurinn skal þá greiddur af þeim stjórnsýsluaðila sem mannvirkið heyrir undir. Þannig verða t.d. fyrirhleðslur til varnar þjóðvegum eða brúm greiddar af Vegagerðinni. Og þá þykist ég hafa svarað til um Jökulsárlónið. Við fyrirhleðslu til varnar landi ber Landgræðslan almennt kostnaðinn, en annars sá stjórnsýsluaðili sem landið heyrir undir. Enn fremur er gert ráð fyrir að kostnaður skiptist milli Landgræðslunnar og hlutaðeigandi stjórnsýsluaðila þegar svo háttar til að vötn ógna í senn landi og samgöngu- og/eða veitumannvirkjum.

Ef upp kemur ágreiningur um skiptingu kostnaðar fer landbúnaðarráðherra með úrskurðarvald þar um. Lögin heyra undir landbrh. og eðlilega fer hann þá með úrskurðarvaldið. Um það er enginn ágreiningur verði frv. að lögum.

Nú háttar oft svo til að minni háttar framkvæmdir þurfa að bíða mjög lengi eftir framkvæmdafé. Í ljósi þess að oftast nær er einkaaðilum um megn að bera þennan kostnað er gert ráð fyrir að Landgræðslan geti styrkt slíkar framkvæmdir, sbr. 3. mgr. 8 gr. Gera má ráð fyrir að lítið sem ekkert verði um fyrirhleðsluframkvæmdir sem snúa að einkaaðilum, nema slíkir styrkir komi til. Þess vegna eru slíkir styrkir mjög mikilvægir til þess að koma til móts við mörg smærri verkefni.

Ef ég lít hér á ýmsar þær spurningar sem ég hef fengið þá spurði hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir um Markarfljótið og hvort þar væri breyting. Ég tel, eins og ég hef lesið hér, að þar sé í sjálfu sér engin breyting. Vegagerðin kemur að hönnun þessara garða og þetta samstarf heldur áfram eins og verið hefur. Matsnefndirnar falla aftur á móti niður sem gerir það að verkum að Landgræðslan ber enn meiri ábyrgð og verður að vera skjót til þegar vandræði steðja að og við hana eina ber að hafa samband þannig að ábyrgð hennar er aukin.

Varðandi kostnað við varnargerð sem á að varðveita vatnsveitu í Vestmannaeyjabæ þá ég á ekki von á öðru en að það sé verkefni úr fjárlögum að verja þá vatnsveitu eins og verið hefur. Ef ég veit rétt er verið um þessar mundir að taka gömlu vatnsveituna til Vestmannaeyja af gömlu brúnni sem löngu er hætt að nota og grafa hana niður í botninn á Markarfljóti. Það verk átti að vísu að vinna í haust en vegna þess hversu Markarfljót hefur verið vatnsmikið í vetur er fyrst verið að gera það núna. Ef ég veit rétt er sú framkvæmd kostuð af fé ríkisins þannig að ég á ekki von á að menn geri annað en þeim ber skylda til, þ.e. að verja það mannvirki sem vatnsveitan til Vestmannaeyja er og þar verði engar deilur um.

Jökulsárlónið heyrir samkvæmt öllu þessu fyrst og fremst undir Vegagerðina. Hennar er að koma með úrræði þar og auðvitað að vinna með Landgræðslunni. Mér finnst þetta vera skýrt skv. 7. og 8. gr.

Hv. þm. Drífa Hjartardóttir spurði um Viðlagasjóð. Ég vil kannski ekki fara út í þá umræðu en bið hv. nefnd að fara yfir það atriði sem formaður landbn. minntist hér á.

Hv. þm. Þuríður Backman spurði um nytjaland, hvað það væri. Ég hef svo sem ekki verið að gá að neinum skýringum en ég reikna með að þar sé fyrst og fremst átt við gróin tún og góðan bithaga. En markmið þessara laga er fyrst og fremst að reyna að halda þessum miklu fljótum í farvegi sínum, hvernig svo sem landið er, en náttúrlega er ekkert sárara, eins og hér hefur komið fram, en að sjá þá miklu eyðileggingu sem oft verður í miklum hamförum þegar stórfljótin taka burtu fleiri hektara af túnum og nytjalandi --- það finnst manni sárt að horfa á --- og skilja eyðinguna eftir eins og glöggt mátti sjá núna t.d. með Hvítá uppi í Hrunamannahreppi í flóði núna í vetur. Ég hygg því, hv. þm., að þetta sé það sem átt er við.

Hv. þm. spurði um samráð og leggur mikið upp úr samráði við búnaðarsambönd og héraðsráðunauta. Það er tryggt í þessu frv. eins og ég gat um. Ég held að kostnaðarskiptingin milli Vegagerðar og Landgræðslunnar sé alveg skýr og hafi aldrei verið neitt ágreiningsmál.

Þá hef ég farið yfir frv. Ég gat þess áðan að í máli hv. þm. Karls V. Matthíassonar kom fram að hann óttaðist að deilur yrðu um úrskurði. En þetta er nú svona. Þetta eru lög sem heyra undir landbrh. og slík deiluefni koma á hans borð og vona ég, hver sem hann verður um aldir alda, að hann verði fær um að útkljá og fella þá úrskurði sem honum ber.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu, þakka þessa umræðu og bið hv. landbn. að taka við málinu og fara yfir það og vænti þess að það verði að lögum á vorþingi.