Eldi og heilbrigði sláturdýra

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 18:29:26 (4860)

2002-02-18 18:29:26# 127. lþ. 79.10 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, nr. 96/1997, með síðari breytingum.

Herra forseti. Ég held að þetta sé eitt af fáum frv. þar sem titillinn er lengri en frv. sjálft því að það er ekki nema tvær greinar og þær afar stuttar. Verið er að leggja til að gjald vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum í sláturhúsum verði hækkað úr 2,50 kr. upp í 3,46 kr. á kíló og að lögin taki gildi 1. júní 2002. Titillinn eða heiti frv. er því lengra en frv. En þó svo að frv. sé lítið og í sjálfu sér auðskiljanlegt þá vekur það samt sem áður upp nokkrar spurningar.

[18:30]

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa, eftir að hafa lesið athugasemdir við lagafrv. og rökstuðninginn með því, að erfiðleikar séu í rekstri Eftirlitssjóðs, sjóðs sem á að standa undir greiðslum vegna eftirlits með slátrun í sláturhúsum. Gjaldið sem er lagt á hvert kíló af slátruðu dýri á að vera raunkostnaður. Það á ekki að leggja á það hærra verð en sem nemur kostnaðinum við eftirlitið.

Lagaumhverfi okkar er hins vegar þannig að okkur ber að hafa opinberan eftirlitsaðila, sem er þá landbrn. Eftirlitssjóður á í raun og veru að standa undir þeim kostnaði. Í nokkur ár hefur sú heimild ekki verið fullnýtt sem var í lögunum, að hafa gjaldið 2,50 kr. á hvert kíló. Með hækkuninni sem hér er farið fram á er vísað til þess að ekki þurfi að hækka gjaldið næstu árin en þessi hækkun er talin duga til að mæta þeim hækkunum sem orðið hafa á gjaldskrá dýralækna, þeim kostnaði sem aðallega hefur hleypt verðinu upp.

Herra forseti. Afurðastöðvarnar eiga í miklum erfiðleikum í rekstri. Ég hefði talið að skoða þyrfti sérstaklega hvort ekki þyrfti að styrkja rekstur afurðastöðvanna með opinberum aðgerðum. Það mætti hugsa sér að gera það án þess hækka gjaldið. Framlag ríkissjóðs, eins og hefur verið á undanförnum árum, mætti líta sem viðurkenndan styrk til afurðastöðvanna og hækka þar með ekki gjaldið. Verði það ekki gert á þennan hátt hvet ég til þess að það verði skoðað sérstaklega hvernig hægt er að styrkja rekstur afurðastöðvanna með opinberum aðgerðum. Hingað til hefur verið brugðið á það ráð að stækka afurðastöðvar og fækka þeim, stefna jafnvel að því að hafa 5--8 afurðastöðvar á landinu innan fárra ára og ná betri rekstrarafkomu eingöngu með stækkun. Ég tel hins vegar að þar gætum við verið á mjög varhugaverðri braut. Ég vil spyrja hvort við viljum slíka þróun. Eigum við ekki frekar að snúa til baka og stuðla að því að það verði fleiri sláturhús en færri? Ég hef ekki enn þá séð að sameiningin sem orðið hefur hafi skilað sér í betri rekstrarafkomu núverandi sláturhúsa, leitt til lægra vöruverðs sem hefði skilað sér til neytenda.

Ég vil aftur leggja fram þessar spurningar: Erum við á réttri leið? Með því að fækka sláturhúsunum og hafa eingöngu þann hvata að bæta rekstur hjá einstaka afurðastöð leggst stóraukinn kostnaður vegna flutnings á dýrum á bændur. Hvað með dýravernd og þann langa flutningstíma dýranna á sláturhús frá mörgum bændum? Hvað með neytendavernd? Hvað með gæði vörunnar og flutning dýra til slátrunar um svo langan veg? Það að fækka svona sláturhúsum veikir byggð og landbúnað í landinu. Við getum litið á Vestfirði í því sambandi, eins og dæmið er í dag. Smithætta eykst þegar við flytjum sauðfé yfir sauðfjárvarnalínur. Við munum auka flutning yfir þær varnarlínur sem við höfum sett í dag. Þrátt fyrir að fara eigi með gát og þvo bílana munum við samt sem áður að auka smithættu.

Mjög margir bændur verða að treysta á þá vinnu sem þeir fá við slátrun á haustin. Ef við fækkum enn sláturhúsum kippum við þessari atvinnu undan afkomu bænda. Ég held að við verðum að horfa á miklu miklu fleiri þætti en eingöngu rekstur hverrar afurðastöðvar fyrir sig. Það er varla eina leiðin til að treysta rekstur sláturhúsanna að stækka þau. Ein leiðin gæti verið að hækka ekki gjaldið og færa til þann kostnað sem til fellur en miðað við þá lagaumgjörð sem við höfum, þar sem eftirlitsgjaldið á að standa undir kostnaði, hvet ég til að skoðað verði með hvaða hætti við getum stutt við bakið á rekstri sláturhúsanna og landbúnaði í landinu.