Eldi og heilbrigði sláturdýra

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 18:42:59 (4862)

2002-02-18 18:42:59# 127. lþ. 79.10 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, nr. 96/1997, með síðari breytingum.

Hér er ekki um miklar breytingar að ræða. Talað er um að breyta einu atriði í lögunum, 2,50 kr. verði að 3,46 kr. --- 2,50 kr. verði breytt í 3,46 kr.

[18:45]

Þetta frv. er ekki eins jákvætt og hið síðasta sem lagt var fram af hálfu hæstv. landbrh. Eins og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir sagði áðan er hér lögð til töluverð hækkun á þessu gjaldi sem er nánast 40% á milli ára og 70% hækkun frá árinu 1995. Þetta er umtalsverð hækkun. Verið er að tala um að skoðun á þessu kjöti fari úr 62 millj. í 73 millj. kr. ef ég hef margfaldað þetta rétt þannig að þetta er töluvert mikið. Mig langar að spyrja hæstv. landbrh.: Rennur þetta fjármagn þá til þeirra sem skoða kjötið? Er hér um að ræða að verið sé að skoða allt kjöt í öllum kjötvinnslum? Það hlýtur að vera. Á þetta við um svínakjöt og fuglakjöt líka eða á þetta eingöngu við um kjöt af sauðfé og kúm eða kannski hestum líka, hrossakjöt? Hvaða kjöt er nákvæmlega um að ræða? Í grg. er talað um, herra forseti, að þetta sé gert til að viðhalda heimild til útflutnings sláturafurða frá íslenskum sláturhúsum til Evrópusambandsins og Bandaríkja Norður-Ameríku.

Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að það fari þá svona mikið kjöt til útlanda, svona gífurlega mikið magn, eða er hægt að hafa tvær reglur í gildi, herra forseti? Ég spyr hæstv. landbrh. um það og þá er ég að tala um kjöt sem fer á innanlandsmarkað: Þurfa að gilda eins strangar reglur um skoðun þess kjöts og hins sem fer á utanlandsmarkað? Er hægt að vera með fleiri en eina tegund af sláturhúsum í landi voru, þ.e. sláturhús sem hafa svo stranga gæðastaðla að þau hafa heimild til að selja kjöt til útflutnings? Eru til mörg önnur sláturhús í landinu sem eru undanþegin þessu? Og þá vakna spurningarnar: Getum við verið með minni kjötskoðun á innanlandsmarkaði en samt tryggt að gæðin séu mjög góð, séu eins og þau eiga að vera, heilbrigt og gott kjöt?

Ég þekki mann sem sagði mér að hann hefði komist yfir hangikjöt af heimaslátruðu og þetta kjöt hafði verið reykt á tilteknum bæ sem ég man ekki nákvæmlega hvað heitir, herra forseti. Maðurinn sagði að þetta hefði verið eitt það albesta hangikjöt sem hann hefði smakkað og það hefði gert öllum gott sem borðuðu það og var það þó eigi skoðað mjög grannt.

Ég er ekki að gera lítið úr því, herra forseti, að haft sé eftirlit með landbúnaðarafurðum. Spurningin er hins vegar hversu strangar reglurnar eiga að vera eins og hv. þm. Þuríður Backman nefndi í hugleiðingum sínum um sláturhús áðan. Geta sláturhús ekki verið minni og fleiri og í ýmsum flokkum? Jafnvel má hugsa sér að nokkrir bændur taki sig saman í hreppum eða sveitum og komi sér upp sláturhúsi og eigi meiri aðild að því að koma kjötinu sínu á markað og hafi beinni og nánari tengsl við markaðinn án þess að það sé á kostnað heilbrigðisins. Ég er auðvitað ekki að tala um það, herra forseti, að slátrað sé við hvaða aðstæður sem er. Það má alls ekki skilja orð mín svo. En það sem ég velti vöngum yfir og verður sjálfsagt rætt um í hv. landbn. er kostnaðurinn við kjötskoðunina sem á að verða, eftir því sem ég kemst næst, u.þ.b. 73 millj. kr. Hvert rennur þetta fé og er nauðsynlegt að hækka þetta svona mikið? Er ekki hægt að breyta þessu kerfi á einhvern hátt?