Eldi og heilbrigði sláturdýra

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 19:12:29 (4866)

2002-02-18 19:12:29# 127. lþ. 79.10 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[19:12]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega hefur Framsfl. ráð og orð að segja fólkinu í landinu. Við trúum því að hlutirnir verði hér í lagi áfram, hér muni ríkja uppgangur og velmegun og atvinnuleysi ekki ná fótfestu. Það er í mínum huga ein stærsta plága sem herjar á mörg þjóðlönd. Ég er bjartsýnn hvað það varðar.

Hv. þm. veltir fyrir sér hvernig við getum aukið íslenskan landbúnað. Ég held að til þess séu margir möguleikar í dag. Það er langtímaþróun. Saga liðinna ára er samofin því að við kunnum ekki að nýta sérstöðu okkar. Menn voru kannski heldur ekki að spyrja eftir sérstöðu okkar í veröldinni, líkt og nú er sóst eftir. Markaðirnir hafa verið að breytast. Ég hef séð það á Fresh Field mörkuðunum í Bandaríkjunum. Ég hef séð það á sérmörkuðum hér í Evrópu. Neytandinn spyr í vaxandi mæli eftir vörum sem eru framleiddar í landi eins og Íslandi, kannski á öllum sviðum matvælanna. Þetta er markaðurinn sem við eigum hægum og föstum skrefum að þróa og gera að okkar. Við höfum aldrei mikið magn til að framleiða. Við mettum ekki alheiminn af okkar góðu vörum. En við getum eignast mjög trygga neytendur sem vilja borga hátt verð fyrir hinar miklu úrvalsvörur sem eru á borði íslenskra neytenda í dag. Hlutur íslensks landbúnaðar hefur á ný vaxið með hlutdeild íslenskra neytenda því að þeir vita sem er, að þessi vara er mjög örugg, framleidd af færu fólki og góð á markaðnum.